Lögreglan var kölluð til vegna manns sem var ölvaður á rangli um stigagang fjölbýlishúss í Kópavogi. Hann reyndist vera í villum og hjálpaði lögreglan manninum að komast til síns heima. Þá mætti lögregla til að grípa inn í atburðarás þar sem maður var til vandræða á veitingastað í miðborginni. Ekki þótti ástæða til að handtaka hann og var stuggað við óróaseggnum og honum vísað frá. Á sömu slóðum var einnig tilkynnt um minniháttar skemmdarverk á hóteli og annarlegt ástand manns. Gerandinn var ennþá á staðnum er lögreglu bar að garði. Hann var handtekinn og læstur inni í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Ölvaður maður var á reyki um stofnbraut í austurborginni, hættulegur sjálfum sér og öðrum. Honum var bjargað og ekið heim.
Lögreglan brást við tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir í Bústaðahverfi en greip í tómt. Aðilar voru farnir af vettvangi er lögreglu bar að.
Í Garðabæ bar það helst til tíðinda í nótt að maður steinsvaf undir stýri. Vegfarendur kölluðu til lögreglu sem kom á staðinn og ýtti við þeim þreytta. Þá kom í ljós, laganna vörðum til léttis, að maðurinn var allsgáður og ekkert við framferði hans að athuga.
Innbrot og þjófnaður áttu sér stað í Kópavogi. Málið er unnið samkvæmt hefðbundnu verklagi. Á sömu slóðum var lögregla kölluð til vegna óvelkominna einstaklinga á stigagangi fjölbýlishúss. Þeir voru reknir á dyr.
Aðili var handtekinn í Breiðholti, grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, Hann reyndist einnig hafa verið sviptur ökuréttindum og uppsker refsingu í samræmi við brot sitt. Á sömu slóðum var lögregla kölluð til vegna líkamsárásar. Ofbeldismaðurinn var handtekinn og læstur inni í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Fjögurra bifreiða árekstur varp á stofnbraut í Grafarvogi. Betur fór en á horfðist og enginn slasaðist.