Á hverju ári velur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra handhafa kærleikskúlunnar, sem þykir hafa með verkum sínum breytt viðhorfum og bætt líf samborgara sinna og samfélag; vakið athygli á afar mikilvægum gildum og sjálfsögðum mannréttindum.
Í ár var það Steinunn Ása Þorvaldsdóttir sem valin var sem handhafi kærleikskúlunnar:
„Þetta er ótrúlega falleg viðurkenning og ég er svo þakklát og hrærð og stolt,” segir Steinunn Ása í samtali við fréttastofu RÚV.
Eins og kunnugt er hefur Steinunn látið vel til sín taka í réttindabaráttu fatlaðs fólks um langt árabil; er einn af stjórnendum sjónvarpsþáttarins Með okkar augum.
Nýverið kom út bæklingurinn Saga Steinunnar hjá Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar.
Rekur þar Steinunn sögu sína og reynslu af fordómum sem og ofbeldi:
„Þetta er merki um það sem er framundan. Það þarf að berjast fyrir fatlað fólk. Það þarf að sýna þeim meiri virðingu og skilning. En það þarf að muna að stjórnvöld þurfa að fara að samþykkja samninginn um réttindi fatlaðs fólks. Það hefur ekki verið gert og við þurfum að standa í lappirnar þegar að því kemur.“
Þess má geta að þegar Kærleikskúlan var afhent fyrst árið 2003, þá afhenti Steinunn Ása Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta Íslands, kúluna góðu:
„Það má segja að ég hafi fengið kúluna aftur heim,“ segir Steinunn.
Það var þýska listakonan Karin Sander sem hannaði kúluna í ár, Kúlu með stroku, en allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar rennur til sumarbúðanna í Reykjadal.