Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Stelpur dúxa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Athygli vekur nú þegar brautskráningum framhaldsskólanna er víðast hvar lokið þetta vorið er fjöldi stúlkna sem dúxa samanborið við pilta. Mannlíf tók saman upplýsingar í 19 framhalds- og menntaskólum um allt land. Þar kemur berlega í ljós að stúlkur eru í meirihluta þeirra sem dúxa eða alls 14 á móti fimm piltum.

Kristjana Stella Blöndal, dósent við félagsvísindasvið Háskóla Íslands, hefur um árabil rannsakað brottfall úr framhaldsskólum og síðustu misseri hefur verið aukin áhersla á kynjahlutföll í slíkum rannsóknum.

Í samtali við Mannlíf tekur Kristjana Stella undir að þróunin sé á þá leið að stúlkur séu að ná betri námsárangri hlutfallslega eins og tölur um fjölda stúlkna sem dúxa bera með sér. Hún bendir einnig á að kyn hafi áhrif á fleiri þætti. „Þetta snýst ekki bara um einkunnir heldur líka námsvalið, það er svo kynjað og það nær alveg upp í háskólann,“ segir Kristjana og bætir við að varhugavert sé að tala jafnmikið og raun ber vitni um að konur séu síður að velja sér tæknigreinar. „Ef þú skoðar námsval í háskóla t.d. þá kemur í ljós að námsval kvenna er miklu breiðara heldur en námsval karla,“ segir hún og bendir á að dæmigerðar „kvennagreinar“ séu mun stærri og fleiri en þær sem teljast til dæmigerðra karlagreina.

Strákarnir ekki að hverfa úr námi

Aðspurð um hvort þessar tölur séu vísbending um að strákar séu að hverfa úr hefðbundnu bóknámi, segir Kristjana svo ekki vera. „Það sem hefur gerst er að stelpum hefur fjölgað svo mikið í bóknámi. Strákunum hefur ekki fækkað, þeim hefur bara ekki fjölgað,“ útskýrir hún og bætir því við að ef starfsnám er skoðað sérstaklega þá komi í ljós að þar sé fækkun nemenda af báðum kynjum.

„Þessi umræða um að skólinn sé hreinlega meira fyrir stelpur en stráka hefur verið áberandi lengi en það sem mér finnst varhugavert í umræðunni er að það er alltaf verið að draga svo miklar ályktanir af meðaltölum. Ef við skoðum stráka og stelpur, þá er t.d. mun meiri munur innan kynja heldur en á milli kynja í þeim rannsóknum þar sem enn var verið að vinna með tvö kyn,“ segir Kristjana Stella.

Hún segir að ekki sé einfalt að skýra mun á milli kynja í námi en bendir á að lengi hafi verið skoðað hvort fækkun karlmanna í kennarastétt gæti skýrt lakari árangur hjá  strákum en rannsóknir hafa ekki staðfest að svo sé. Hún bendir á að eitt sinn hafi hún lagst yfir gamla skólaannála úr MR frá byrjun síðustu aldar en þar hafi mikið verið rætt um að stelpur séu sterkari í náminu. „Þá voru í fyrsta lagi miklu fleiri strákar en stelpur í skóla og í öðru lagi voru nær allir kennarar karlkyns.“

- Auglýsing -

Að sögn Kristjönu Stellu voru strákar lengi framan af að standa sig betur en stelpur í stærðræði. „Þá var gripið til líffræðilegra skýringa og því m.a. annars haldið fram að strákar hefðu meiri rýmisgreind en stelpur. Svo ná stelpurnar í skottið á strákunum og þá var farið að tala um að skólakerfið væri ónýtt,“ segir hún og rifjar upp að á sínum tíma hafi forsíður blaðanna slegið því upp þegar strákar voru að koma illa út í PISA- könnuninni. „Á sama tíma voru stelpurnar að standa sig gríðarlega vel en það var lítið sem ekkert minnst á það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -