„Ég byrjaði á henni fyrir nokkrum árum síðan og kveikjan var eiginlega sú að ég varð svakalega veik af gigtarsjúkdómi. Það kom tímabil þar sem ég gat hreinlega ekki gert neitt nema að liggja og hugsa, hlusta á tónlist og horfa á sjónvarpið. Lögin og textarnir urðu svo til upp úr þeirri lægð. Ég skoða sjálfa mig og mín tengsl við aðrar manneskjur á þessari leið frá því að standa í stað í myrkri og komast svo upp úr því með jákvæðni og hjálp. Í þessu öllu saman lærði ég svo að njóta lífsins betur, lifa meira í núinu og gefa skít í meira sem skiptir ekki máli,“ segir Stína Ágústsdóttir í samtali við Mörtu Maríu Winkel í Smartlandinu á Mbl.
Stína snéri sér alfarið að tónlistinni eftir að hafa lært verkfræði. Hún segist hafa verið arfaslakur verkfræðingur því hún er svo léleg að sitja á fundum. Hún býr í Svíþjóð ásamt eiginmanni sínum, Tómasi Gunnarssyni, og börnum en flakkar mikið á milli landa þar sem foreldrar hennar búa á Íslandi. Á sunnudaginn ætlar Stína að vera með útgáfutónleika í Hörpu en hennar fjórða sólóplata hefur litið dagsins ljós. Drown to Die a Little er sérstök að því leitinu til að þetta er í fyrsta skipti sem hún gefur út plötu með frumsömdum lögum en platan kom til hennar meðan hún var sem veikust af gigtarsjúkdómi sem hrjáir hana.
„Jú. Ég útskrifaðist sem véla- og iðnaðarverkfræðingur og vann sem slíkur í eitt og hálft ár. Ég var búin að lofa sjálfri mér að byrja í Söngskólanum í Reykjavík eftir að ég útskrifaðist og stóð við það. Þegar ég fór þangað var ekki aftur snúið, þörfin var bara of sterk. Ég var alveg arfaslakur verkfræðingur og er sérlega léleg í því að sitja á fundum og ræða alvarleg málefni. Ég flutti til London með fyrirtækinu sem ég var að vinna hjá þegar ég var verkfræðingur og svo var niðursveifla í tölvubransanum og það þurfti að skera niður og svo heppilega vildi til að ég lenti í þeim niðurskurði. Eftir það ævintýri flutti ég til Montreal í Kanada og fór svo bara í alvöru jazztónlistarnám og lýsti því yfir að ég væri hætt að vera verkfræðingur.“
Tónlistina samdi hún ásamt vini sínum, Mikael Mána Ásmundssyni.
„Ég samdi flest lögin í samstarfi við ungan snilling og vin minn til nokkurra ára, Mikael Mána Ásmundsson, en hann spilar á gítar á plötunni og á tónleikunum. Ég er svo ofboðslega heppin að fá að vinna með stórkostlega hæfileikaríku og færu tónlistarfólki, eins og bassaleikaranum á plötunni Henrik Linder. Hann býr í Stokkhólmi eins og ég og það var í gegnum sameiginlega vini sem við kynntumst og fórum að spila saman. Hann er í hljómsveit sem heitir Dirty Loops og hefði undir venjulegum kringumstæðum verið að spila út um allan heim en útaf heimsfaraldri spilaði hann bara jazz með mér í staðinn og svo í þessu verkefni.
Hann verður einmitt með mér á útgáfutónleikunum ásamt þeim sem spiluðu á plötunni.“