Í dag verður norðaustan kaldi eða stinningskaldi víðast hvar á landinu. Dálítil él verður norðaustanlands, en annars úrkomulítið. Síðdegis þá minnir vetur konungur þó enn einu sinni á sig er það þykknar upp og fer að snjóa suðvestanlands. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings.
Þar segir einnig að snjókomubakkinn fikri sig síðan norðaustur yfir landið í nótt og fyrramálið þannig að einhver ofankoma verður í öllum landshlutum. Eftir hádegi á morgun dregur úr úrkomu, en seinnipartinn verður komin norðanátt á landinu með éljum norðantil, en að sama skapi birtir til syðra. Úrkomunni fylgir skammvinn hlýnun, en hiti mun ná upp fyrir frostmark með suðurströndinni.
Útlit er fyrir norðlæga átt og kólnandi veður á laugardaginn með éljum norðanlands en bjartviðri um landið sunnanvert. Léttskýjað og hægur vindur verður í öllum landshlutum á sunnudaginn, en á sunnudagskvöld fer að hvessa af suðri og hlýna þegar næsta lægð nálgast okkur með slyddu eða rigningu.