Eftir // Jón Óðinn Waage
Hann var innan við tvítugt er hann fór með vini sínum á skemmtun þar sem ungu fólki var boðið að sýna getu sínu í söng. Hann ætlaði ekki að taka þátt, fylgdi bara vini sínum. En hann var í eðli sínu grallari sem að alltaf var til í fjör, svo hann stökk upp á svið og greip hljóðnemann. Það átti samt bara að vera létt grín. Stjórnendum skemmtunarinnar fannst þetta ekkert fyndið, alls ekki. En þeim fannst þessi ungi maður hafa afar fallega rödd, flauelsmjúka og seiðandi sem gat líka farið upp og niður tónstigann áreynslulaust.
Þannig hófst söngferill þessa unga pilts af Oddeyrinni, sonur fátæks verkafólks. Það var engin efnahagsleg meðgjöf, en þeim mun meira að umhyggju og ást. Það var reyndar meðfæddur hæfileiki þessa unga manns, allir elskuðu hann. Gáskinn heillaði alla. Hann var alltaf hrókur alls fagnaðar.
Söngferillinn hófst því fyrir tilviljun. En risið upp á hinn litla stjörnuhiminn sem Ísland skartaði var hratt. Hvert lagið á fætur öðru náði vinsældum, honum var boðið til höfuðstaðar landsins til að syngja með vinsælustu hljómsveit landsins. En fyrir ungan, fátækan Eyrarpúka var þetta hættuleg vegferð. Að vera frá náttúrunnar hendi heillandi umfram flesta þá bætir það ekki að verða vinsælasti dægurlagasöngvari landsins.
Konur voru allt í kringum hann, líka menn sem vildu fá að taka þátt í gleðinni og gleðin var mikil. Svo varð hún of mikil. Hann höndlaði þetta ekki, áfengið og hann áttu ekki samleið, samt vildi hvorugt sleppa af hinu takinu. Fallið varð hátt. Hann flúði frá Íslandi.
Við tók ferill flakkarans. Hann gerðist sjómaður á skipum sem sigldu um heiminn. Til að byrja með var nýja lífið mikið ævintýri. Stuð í hverri höfn, hann þurfti ekkert á frægðinni að halda til að heilla fólk, það var honum meðfætt. Það var sama hvort að það var í Osló eða Singapúr, á báðum stöðum var hann gaurinn sem dömurnar vildu og menn vildu djúsa með.
En svo liðu árin, flakkið fór að verða leiðigjarnt, hann saknaði Íslands, foreldra sinn og bræðra. Líka barnanna sinna tveggja. En það var ekki auðvelt að snúa heim. Flandrið hafði skilað honum suður á Indlandshaf, þar sigldi skipið sem hann var kominn á. Heimferð á þessum tíma var dýr, peningar höfðu ekki verið sparaðir í landlegum, fjörið kostaði sitt. Hann vildi heim, tíminn sem tók að spara fyrir heimferðinni tók sinn tíma og var erfiður.
Þegar til Íslands kom var allt breytt. Nýjar yngri hetjur réðu skemmtanabransanum, það var ekki markaður fyrir dægurlagasöngvara sem ekki var í tísku lengur. Hann komst hvergi að, fallega röddin fékk bara að hljóma í samkvæmum, þar var hann enn aufúsugestur, enn sama samkvæmisljónið.
Þannig liðu árin og áratugirnir, áfengið réði för, hann var alveg búinn að missa stjórn á þeim fylginaut. Alltaf blundaði samt draumurinn um endurkomu, hann hafði reynt en ekki orðið ágengt.
Að lokum fór líkaminn að gefa sig.
Krabbamein tók sér bólfestu í hálsinum og eyðilagði röddina. Hann gat ekki einu sinni talað lengur. Fyrir honum voru þetta endalokin, hann tók þá ákvörðun að drekka sig í hel. Honum tókst það.
Fáir fylgdu honum til grafar, örfáir vinir sem höfðu reynst sannir vinir þegar á reyndi. Ein minningargrein birtist í fjölmiðlum, lítil stúlka sem hann hafði gengið í afastað skrifaði hana. Engin lög voru spiluð honum til heiðurs á útvarpsstöðvum.
Hann yfirgaf þennan heim vinafár.
Tíu árum eftir andlát hans gekk eitt af lögum hans í endurnýjun lífdaga. Yngri menn höfðu reynt sig við það en tekist dapurlega upp, hans útgáfa af laginu varð nú ógnarvinsæl. Tónleikar voru haldnir honum til heiðurs mörgum sinnum, fullt var út úr húsi á þeim öllum. Hann fékk nú þá viðurkenningu sem að hann hafði þráð í marga áratugi. En hún kom tíu árum of seint.
Það á að heiðra fólk meðan að það er lifandi.