Með tilkomu samfélagsmiðla hafa foreldrar fengið óvænt vopn í hendurnar – að geta gert góðlátlegt grín að börnunum sínum þannig að þau fari hjá sér. Þetta höfum við séð margoft, til dæmis þegar foreldrar endurgera sjálfsmyndir barnanna sinna, börnunum til mikils ama.
Stjörnupabbinn Will Smith hefur nú gengið einu skrefi lengra og ákvað að endurgera mynbandið við lagið Icon, en það er sonur hans Jaden Smith sem flytur lagið. Will gerði þetta til að fagna því að lagið náði þeim stóra áfanga að vera streymt hundrað milljón sinnum á Spotify.
„Til hamingju með 100.000.000 streymi á Spotify, Jaden! Það er æðisleg gjöf fyrir foreldra að dást að börnunum sínum. Haltu áfram að vera þú,“ skrifar Will við myndbandið á Instagram, og má greina vissa hæðni í kveðjunni.
Jaden Smith hefur fetað í fótspor foreldra sinna, en móðir hans er leikkonan Jada Pinkett-Smith, og hefur náð góðum frama í leiklistinni. Hann lék til dæmis á móti föður sínum í kvikmyndinni The Pursuit of Happyness og vakti síðar lukku í endurgerð á The Karate Kid. Í nóvemer í fyrra gaf hann síðan út sína fyrstu plötu, Syre, en lagið Icon er einmitt á þeirri plötu.
Hér fyrir neðan má sjá upprunalegu útgáfuna af myndbandinu við Icon, en faðir hans virðist hafa náð að stæla það ótrúlega vel.
Texti / Lilja Katrín
[email protected]