Líkt og Mannlíf fjallaði um í maí síðastliðnum höfðu landeigendur einnar merkustu náttúruperlu landsins, samþykkt kauptilboð í landsvæðið. Þar er að finna Fjaðrárgljúfur, sem varð heimsfrægur ferðamannastaður, eftir að söngvarinn Justin Bieber tók þar upp tónlistarmyndband. Gljúfrið er hluti af jörðinni sem nefnist Heiði en samþykkt kauptilboð hljóðar upp á 300 til 350 milljónir króna og er kaupandinn Íslendingur sem starfar í ferðaþjónustu.
Fréttablaðið greindi frá því í dag að Íslensk stjórnvöld hefðu ekki nýtt sér forkaupsrétt á Fjaðrárgljúfri og frestur til þess að nýta réttinn sé nú runninn út. Skömmu fyrir heimsfaraldurinn þurfti að loka gljúfrinu en stöðugur straumur ferðamanna, sem gengu um allt svæðið, var farið að hafa slæm áhrif á náttúruna. Aðgangur að svæðinu hefur fram til þessa verið ókeypis og landverðir á vegum Umhverfisstofnunar sinnt gljúfrinu. Óljóst er hvort eða hvenær breytingar verði þar á og hvort nýr eigandi hyggist taka upp gjaldtöku.