Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Stöðugt fleiri ofbeldismál koma til kasta lögreglu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögreglan skilgreinir ofbeldisverk gegn konum mun betur í dag en áður. Rannveig Þórisdóttir hjá upplýsingadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir fleiri þolendur ofbeldis þora að stíga fram nú en áður.

Sextán einstaklingar fengu neyðarhnapp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári vegna hættu á ofbeldi gegn þeim. Þetta er næstum 80% aukning frá árinu 2015 þegar einstaklingar í níu málum fengu neyðarhnappa. Á sama tíma hefur lögreglan þurft að hafa afskipti af miklu fleiri málum sem tengjast heimilisofbeldi en áður. Þau voru um 20 að meðaltali á mánuði árið 2014 en eru nú um 60 á mánuði.

Rannveig Þórisdóttir hjá upplýsingadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir ekki víst að ofbeldisverkum hafi endilega fjölgað. Ýmsir þættir skýri að fleiri ofbeldismál eru skráð í bókum lögreglu nú en áður og fleiri fái neyðarhnappa.

„Í langan tíma var litið á heimilisofbeldi sem fjölskylduvandamál sem lögreglan átti ekki að skipta sér af. En það er ekkert séríslenskt fyrirbæri,“ segir Rannveig og bendir á að breytt verklag lögreglu hafi skilað þessum árangri.

Rannveig.

Stærstu breytingarnar voru gerðar árið 2015 þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við sem lögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þá hefur lögreglan horfið frá því að vera valdastofnun yfir í að verða þjónustustofnun fyrir almenning. Þessu fylgdu ýmsar áherslubreytingar, m.a. sú að skilgreina heimilisofbeldi sem viðfangsefni lögreglu og skrá brotin sem sem koma upp.

„Það var búið að reyna ýmislegt en gengið illa. Eftir að Sigríður kom inn þá förum við í fullum herklæðum á vettvang og rannsökum málin sem koma upp,“ segir Rannveig og tekur fram að breytt verklag feli í sér að nálgast ofbeldismál með öðrum hætti en áður. Nú er tekið fastar á þeim, þeim fylgt eftir, málin skráð betur og þolendum tryggð betri málsmeðferð. „Við höfum lyft grettistaki um allt land því þetta nýja verklag lögreglunnar hefur leitt til þess að nálgunarbann og neyðarhnappar hafa verið notaðir í meiri mæli en áður.“

Misbrestur í skráningu

Rannveig segir misbrest hafa verið á skráningu málanna áður og minnir á að mál eins og heimilisofbeldi hafi áður ekki verið hugsað sem lögreglumál. „Ég veit ekki hversu samanburðarhæfar tölurnar eru því við vorum ekki að skrá málin með markvissum hætti. Segja má að við höfum vanskráð þetta áður og því sé málum ekki endilega að fjölga,“ segir Rannveig og bætir við að eftir því sem umfjöllun um ofbeldisverk eykst og fleiri stígi fram og greini frá ofbeldisverkum því frekar leiti fólk til lögreglu.

- Auglýsing -

Eins og áður sagði voru 20 mál tengd heimilisofbeldi skráð í bækur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Nú fjórum árum síðar eru málin þrefalt fleiri eða 60 að meðaltali á mánuði.

Spurð að því hvað þurfi til að lögregla láti einstakling fá neyðarhnapp segir Rannveig að það sé metið í hverju tilviki fyrir sig. Oft sé um að ræða aðstæður þar sem óttast er að einstaklingur geti verið í hættu.

„Frá því við breyttum verklaginu sem snerta ofbeldi á heimilum þá hefur verið stöðug aukning ofbeldismála hjá okkur,“ segir Rannveig.

Fjöldi mála þar sem þurft hefur að láta þolanda fá neyðarhnapp

2015: 9 mál
2016: 11 mál
2017: 16 mál

- Auglýsing -

Dæmi um það þegar einstaklingur fær neyðarhnapp

Hildur Þorsteinsdóttir lýsti í ítarlegu viðtali við DV í vor hræðilegu ofbeldi sem fyrrverandi eiginmaður hennar hafði beitt hana bæði á meðan sambúð stóð og í eftirmála skilnaðar. Eftir að hún sleit sambandinu sótti ofbeldismaðurinn svo að henni að Hildur fékk neyðarhnapp hjá lögreglu og varð hún að beita honum þegar henni fannst sér ógnað. Neyðarhnappinn gekk hún með í sex mánuði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -