Landspítalinn birti í dag á Facebook-síðu sinni ljósmyndir sem teknar eru á smitsjúkdómadeild A7 í Fossvogi, en hún er í dag aðeins fyrir einstaklinga smitaða af COVID-19 kórónaveirunni. Myndirnar tók Þorkell Þorkelsson ljósmyndari, sem starfa á Landspítalanum.
„Keli heimsótti á dögunum deild A7 í Fossvogi og fékk að fljóta með á stofugang, en deildin sú er mikið í sviðsljósinu þessa dagana. A7 er í augnablikinu eingöngu ætluð COVID-19-smituðum eins og fleiri deildir spítalans.“
Eins og segir í færslunni þá er meginviðfangsefni A7 annars almenn lyflæknisfræðileg vandamál, greining, meðferð og hjúkrun sjúklinga með sýkingar og smitsjúkdóma. Flestir sjúklingar sem leggjast inn á deildina koma frá bráðadeild, bráðalyflækningadeild eða gjörgæsludeild, en auk þess er tekið á móti sjúklingum með öll almenn lyflæknisfræðileg vandamál. Á deildinni eru sérútbúnar einangrunarstofur ætlaðar sjúklingum sem þurfa einangrun vegna smitsjúkdóma eða skerts ónæmiskerfis. Starfsmenn eru um 50 talsins. Deildarstjóri er Stefanía Arnardóttir og yfirlæknir er Már Kristjánsson.