Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Stór aðgerðapakki stjórnvalda vegna COVID-19 á lokametrunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn eru á lokametrunum við að undirbúa stóran aðgerðarpakka vegna COVID-19 faraldursins. Þetta herma heimildir Mannlífs. Mótvægisaðgerðirnar munu miða að því að styrkja hagkerfið vegna þeirra búsifja sem kórónaveiran er að valda íslensku efnahagslífi.

Á meðal þess sem verið er að undirbúa er lækkun vaxta, en Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lét í vikunni í veðri vaka að bankinn myndi bregðast við aðstæðunum. „Það liggur fyrir að ef það verður mikill samdráttur í landsframleiðslu þá mun það kalla á það að við reynum að örva hagkerfið með peningastefnunni, svo sem með því að lækka vexti en líka eftir öðrum leiðum,“ sagði Ásgeir á opnum fundi á Hilton hóteli í vikunni. Fordæmi eru þegar komin fram fyrir lækkun vaxta vegna kórónaveirunnar. Þannig lækkaði seðlabanki Bandaríkjanna óvænt vexti á þriðjudag, vegna óvissunnar sem uppi er.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri Mynd / Hákon Davíð

Bindiskylda verði lækkuð

Samkvæmt heimildum Mannlífs er vaxtalækkun í farvatninu en einnig er verið að skoða hvort minnka eigi bindiskyldu og létta á eiginfjárkröfu á hendur bönkunum, til að gera þeim kleift að lána til fyrirtækja og tryggja lausafé. Bindiskylda er eitt af stjórntækjum Seðlabanka til að hafa stjórn á magni lausafjár í umferð. Bankinn setur þær kvaðir á lánastofnanir að þær hafi ákveðið hlutfall af innlánum á reikningi hjá Seðlabankanum. Það er til þess fallið að draga úr getu banka til útlána.

Búist er við Seðlabanki tilkynni um þessa ákvarðanir sínar í vikunni og bíði ekki til næsta vaxtaákvörðunardags.

Seðlabankinn

Aðgerðirnar sem í undirbúningi eru snúa líka að ríkisfjármálum. Eftir því sem Mannlíf kemst næst stendur jafnframt til að örva hagkerfið, á þessum óvenjulegu tímum, með stórum ríkisframkvæmdum. Þar verður horft til þess að flýta sumum af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hafði áður sett á tíu ára framkvæmdaáætlun. Um þetta verður einnig tilkynnt í vikunni, samkvæmt sömu heimildum, en líklegt þykir að Seðlabankinn og ríkisstjórnin muni tilkynna um aðgerðir sínar sameiginlega.

- Auglýsing -

Katrín Jakobsdóttir sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að ríkisstjórnin hafi þegar verið farin að undirbúa aðgerðir vegna kólnunar í hagkerfinu. Veiran setti þær aðgerðir í nýtt samhengi. Allar þjóðir stæði frammi fyrir mjög miklum áhrifum af völdum veirunnar. Þess vegna væri verið að undirbúa aðgerðir bæði í ríkisfjármálum og hvað varðar peningastefnuna og efnahagsmálin. Hún sagði að ríkisstjórnin hefði fundað með Seðlabankanum í vikunni og að annar fundur væri fyrirhugaður. Fram kom í fréttinni að til stæði að auka opinbera fjárfestingu vegna stöðunnar.

Mikil áhrif á flug og ferðaþjónustu

Icelandair tilkynnt í gær að 80 flugferðir yrðu felldar niður í marsmánuði, vegna COVID-19-faraldursins. Alþjóðasamtök flugfélaga tilkynntu í vikunni að þau gerðu ráð fyrir að evrópsk flugfélög töpuðu minnst tæpum áttatíu milljörðum íslenskra króna vegna útbreiðslu veirunnar. Aðalhagfræðingur Íslandsbanka, Jón Bjarki Bentsson, lét í vikunni hafa eftir sér að ef allt færi á besta veg yrði fækkun farþega á bilinu sjö til tíu prósent. Ef veiran næði mikilli útbreiðslu yrðu tölurnar hins vegar tveggja stafa. „Það inniheldur þá íslensk flugfélög og þau flugfélög sem fljúga til og frá landinu,“ sagði Jón Bjarki.

- Auglýsing -

Faraldurinn getur gengið nærri fleiri atvinnugreinum en flugrekstri og ferðaþjónustu. Miklar lækkanir hafa orðið á hlutabréfamarkaði í vikunni, svo dæmi sé tekið. Fjölmörgum viðburður hefur síðustu daga verið aflýst eða frestað, jafnt stórum sem smáum. Nettómótinu í körfubolta, sem er þrjú þúsund manna samkoma í Reykjanesbæ, var frestað fyrir helgi, Páll Óskar Hjálmtýsson hefur frestað 50 ára afmælistónleikum, stórri matarsýningu í Hörpu hefur verið slegið á frest og forsvarsmenn stórsýningarinnar Verk og vit hafa frestað viðburðinum til haustsins. Stjórnmálaflokkar hafa frestað landsþingum, fyrirtæki árshátíðum, ásamt fjölmörgum minni og stærri viðburðum.

Stórir íþróttaviðburðir fram undan

Þá má nefna að ekki hefur verið útilokað að stórum íþróttaviðburðum, svo sem landsleiks Íslands og Rúmeníu í umspili fyrir EM í knattspyrnu, verði frestað eða þeir fari fram fyrir luktum dyrum. Úrslitakeppnir í handbolta og körfubolta eru fram undan en áhorfendalausir leikir geta valdið viðkvæmum rekstri íþróttafélaga miklum fjárhagslegum skaða. Ljóst má vera að þeir sem koma að rekstri íþrótta- og menningarstarfsemi halda niðri í sér andanum þegar Almannavarnir svara spurningum um hugsanlegt samkomubann á komandi vikum.

Mannlíf hefur haft fregnir af því að kórónaveiran hafi þegar haft áhrif á starfsemi útflutningsfyrirtækja. Einn fiskútflytjandi orðaði það þannig í samtali við Mannlíf að lítið þyrfti til svo markaðir lokuðust. Kórónaveiran hefði ekki valdið honum sölubresti en að hann hefði þurft að færa sig á milli markaða. Ástandið væri mjög viðkvæmt. Ljóst er að þetta gildir um fleiri útflutningsgreinar.

Hér eru aðeins nokkur dæmi rakin um áhrif veirunnar á atvinnulíf, menningu og íþróttir. Viðbúið þykir að útbreiðsla kórónuveirunnar muni hafa talsverð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Við því hyggjast Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin bregðast í vikunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -