Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu braut Stóra bílasalan lög þegar hún auglýsti söluvöru sína með villandi hætti; bauð upp á 100% lánamöguleika.
Í kjölfarið bannar Neytendastofa Stóru bílasölunni að viðhafa sömu viðskiptahætti og leiddu til brotsins áðurnefnda og segir að til sekta muni koma virði bílasalan ekki bannið.
Kemur fram að Stóra bílasalan auglýsti bíl undir því yfirskini að hann væri „ódýrasti smájeppinn fyrir íslenskar aðstæður.“
Barst Neytendastofu ábending um það, sem og athugasemdir um að lögboðnar upplýsingar skorti um lán sem bílasalan bauð upp á; var einnig gerð athugasemd við auglýsingu um að fáanleg væru „allt að 100%“ bílalán:
„Neytendastofa telur að auglýst bifreið Stóru bílasölunnar geti talist staðgönguvara bifreiðar sömu tegundar frá öðrum seljanda þótt þær séu ekki nákvæmlega sambærilegar þannig að þær hafi alla sömu aukahluti eða aukabúnað. Í slíkum tilvikum verður þó að greina frá því ef varan er ekki sambærileg því val neytenda við kaup á bifreið ræðst af fleiri þáttum en kaupverði. Þannig getur aukabúnaður bifreiðar vegið mikið í þessu mati neytenda enda telur Neytendastofa að það teljist til óréttmætra og villandi viðskiptahátta að bera saman ósambærilegar vörur í auglýsingatilgangi,“ segir í ákvörðun Neytendastofu.