Hrikalegar afleiðingar eldgosanna í Grindavík komu skýrt í ljós í gær þegar fyrirtækið sagði upp 56 starfsmönnum sínum í landvinnslu og hyggst leita nýrra leiða við að halda úti rekstri sinum. Þorbjörn hf, hefur um áratugaskeið verið helsti burðarásinn í atvinnulífi Grindvíkinga og eitt blómlegasta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands. Það er ekki síst vegna Þorbjarnar að Grindavík var fyrir gos blómlegasta byggðarlagið á Reykjanesi.
„Þorbjörn hf. var fyrst stofnað í Grindavík fyrir sjötíu árum og hefur síðan rekið öfluga fiskvinnslu í landi ásamt því að gera út skip frá Grindavík. Okkur hefur tekist að verða eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með hjálp okkar góða starfsfólks sem hefur stigið ölduna með okkur um árabil. Fyrir það erum við þakklát,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins um uppsagnirnar.
Breytingar nauðsynlegar
Stjórnendur Þorbjarnar segjaszt í tilkynningu hafa lagt mikla áherslu á að halda starfsfólki sínu þrátt fyrir miklar áskoranir í rekstri sökum náttúruhamfaranna. En nú er komið að leiðarlokum.
„Við stóðum í þeirri trú að lát yrði á jarðhræringum við Grindavík innan tíðar og hægt yrði að hefja uppbyggingu og starfsemi okkar í Grindavík. En við sjáum því miður ekki til lands enn hvað það varðar. Spár og mat vísindamanna á stöðu náttúruhamfaranna í Grindavík og aðgerðir yfirvalda leiða óhjákvæmilega til breytinga á starfsemi fyrirtækisins“.
Eigendur Þorbjarnar segjast áfram munu þrýsta á yfirvöld að gera sér og öðrum fyrirtækjum kleift að halda starfsemi sinni áfram í Grindavík að viðhöfðu fyllsta öryggi.