Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Stórsöngvarinn Geir Ólafsson af krafti út í stjórnmálin: „Ég er ofboðslega sjúkdómahræddur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að það skiptir engu máli í hvaða flokki maður er af því að ég vil persónukjör,“ segir Geir Ólafsson söngvari sem skipar annað sæti á lista Miðflokksins og óháðra í Kópavogi. „Það er mikið af góðu fólki alls staðar.“

Hvers vegna ákvað Geir að gefa kost á sér?

„Ég fékk símtal fyrir nokkrum vikum sem ég taldi vera eitt af mörgum símtölum sem ég fæ á viku sem eru ákveðin grín; ég fæ símtöl frá fólki sem líður illa og er virkilega að leita eftir hjálp og ég fæ líka símtöl frá fólki sem er að gera grín. Þegar ég fékk svo símtal frá Miðflokknum þá hélt ég að þetta væri grín; af því að það eru að koma kosningar þá hélt ég að það væri við hæfi að hringja aðeins í Geir og athuga hvort hann væri ekki til í að bjóða sig fram fyrir Miðflokkinn. Ég ákvað að taka þessu símtali létt eins og ég reyni að gera öllum stundum og lagði svo bara á og var ekkert að hugsa um þetta meira en svo var þetta í undirmeðvitundinni og ég varð dálítið hugsi. Ég fór að velta því fyrir mér þar sem ég bý í Kópavogi að þar er ýmislegt sem ég vil ekki sjá í neinu bæjarfélagi og maður veltir framtíðinni fyrir sér af því að ég á litla stúlku sem er sex ára gömul. Ég hef áhuga á að hjálpa henni út í lífið og ég vil að hún búi í samfélagi sem ég vildi búa í. Þegar ég fékk svo annað símtal um að ég ætti að skrifa undir lista ef ég ætlaði að taka sæti fyrir flokkinn þá áttaði ég mig á því að þetta var ekkert grín. Ég var í rauninni búinn að undirbúa mig dálítið varðandi það hvaða stefnu ég vildi.“

Og hver er stefna Geirs?

Ég ætla að ná því fram að það verði frítt í strætó.

„Ég ætla að koma Kópavogi aftur á kortið og ætla að hjálpa fólkinu sem þar býr. Ég ætla að ná því fram að það verði frítt í strætó og ég ætla að láta laga strætóskýlin þannig að þau taki vel á móti þeim sem þar bíða eftir strætó í þessu veðri sem við búum við á Íslandi. Skýlin eiga að vera aðlaðandi. Ég ætla að sjá til þess að það verði frítt kaffi fyrir fólkið sem fer í sundlaugarnar og ég ætla að sjá til þess að bæta andrúmsloftið á sumum sundlaugarstöðunum og krefjast þess að við séum að koma vel fram við hvert annað. Ég ætla að láta laga göturnar þannig að það verði ekki neinar holur í götum í Kópavogi. Og ég vil að reynsla leikskólakennara verði metin svo sem eftir áratuga reynslu sem hluti af menntun þannig að þeir fái hærri laun. Börnin eru framtíðin og ég hef margoft orðið vitni að því í leikskóla dóttur minnar að það er alltaf ný og mý manneskja og í sjálfu sér var það allt í lagi; þetta er allt yndislegt og gott fólk en af hverju helst fólkið ekki í störfunum? Það er vegna þess að þetta er svo illa launað. Og þessu ætla ég að breyta. Og ég ætla að koma í veg fyrir að það sé verið að selja eiturlyf í Hamraborginni. Ég vil að það verði öruggt að ganga úti í Kópavogi og að foreldrar geti treyst því að börn þeirra séu örugg úti. Ég ætla að láta banna að handa rusli í Kópavogi nema þar sem á að setja rusl og það á að banna reykingar úti nema þar sé aðstaða fyrir reykingafólk þar sem það getur losað sig við sígarettustubbana á ákveðnum stöðum. Þetta eru hlutir sem auðvelt er að gera. Og með því að búa til svona prótókoll þá væri ég að fá marga til að taka þátt í þessu með mér þannig að hægt og bítandi yrði samfélagið betra.

Ég ætla að syngja mikið fyrir eldri borgara en ég ætla að heimsækja þá og spjalla við þá og spyrja hvað það er sem við getum gert til þess að bæta líðan þeirra og kjör. Ég ætla að fara í fyrirtækin og láta lækka fasteignagjöldin; það er fáránlegt að fyrirtæki fari úr 70.000 krónum á mánuði í 80.000-100.000 krónur. Fyrirtæki má ganga ansi vel til þess að geta staðið undir þessu. Þetta þarf ekki að kosta svona mikið.“

- Auglýsing -

Geir nefnir líka Fannborgarreitinn þar sem á að fara að byggja. „Ég vil að það verði komið til móts við fólkið sem þar býr og því gefinn kostur á að selja íbúðir sínar ekki á undirverði heldur á því verði sem það myndi almennt fá ef það myndi ekki vilja búa við sprengingar og hávaða sem fylgir því þegar byggt verður á svæðinu. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona vinnubrögð. Það er bara ekki hægt. Þetta er fyrir neðan allar hellur og þetta er til mikillar skammar.“

Geir segist ætla að verða ákveðinn fótgönguliði ef hann nær kjöri. „Ég ætla ekki að vera inni á skrifstofu heldur heimsækja fyrirtæki og stofnanir í Kópavogi og vera þeirra maður og þeirra rödd inni á bæjarskrifstofunni til þess að koma sjónarmiðum þeirra á framfæri.

Ef manni býðst tækifæri til að láta rödd sína heyrast og koma sjónarmiðum sínum á framfæri og er tilbúinn að berjast fyrir því þá held ég að ég líti á þetta sem ákveðna skyldu mína til þess að opinberlega hjálpa samfélaginu til þess að verða betra.“

Þetta er dálítið popp. Latín popp.

- Auglýsing -

Þeirra rödd. Geir er þekktur fyrir söngröddina. Í hverju er hann að vinna núna hvað tónlistina varðar?

„Ég er að taka upp plötu. Mitt eigið efni. Þetta er dálítið popp. Latín popp. Ég mun ekki hætta að syngja. Ég mun halda því áfram af því að ég get ekki hætt því sem Guð gaf mér. Þannig að ég vona að það verði engar breytingar á því.“

 

Ótrúlega flott, menntuð og klár

Latín popp. Geir fílar suðræna músík og tengist það meðal annars eiginkonu hans, Adriana Patricia Sanchez Krieger, sem er frá Kólumbíu. Sex ára dóttir hjónanna heitir Anna Rós.

Hjónin kynntust árið 2009.

„Ég vann í fjölskyldufyrirtækinu Dún og fiðri og hringdi pabbi í mig á föstudagskvöldi og bað mig um að búa til eina æðardúnssæng og fara svo með hana til kaupandans í Bláa lónið daginn eftir. Ég gerði þetta og þegar ég kom á hótelið í Bláa lóninu var fullt af stúlkum sem komu til mín og heimtuðu að fá myndir með mér. Ég var til í það. Tvær glæsilegar konur sátu við borð á svæðinu og var önnur þeirra konan sem ég átti að hitta. Ég fór svo til þeirra og spurði vinkona hennar hvers vegna stúlkurnar hefðu verið að taka myndir af mér. Ég sagðist vera frægasti söngvari þessa lands. Hún sagði að ég skyldi sanna það og ég söng fyrir hana O Sole Mio. Eftir það urðum við miklir vinir.“

Það var núverandi eiginkona Geirs, Adriana, sem vildi að hann syngi. Þau voru svo kunningjar næstu þrjú árin. Það var svo árið 2012 sem Geir var að fara að syngja á tónleikum í Los Angeles og þá bauð hann Adriana að koma þangað sem hún gerði og þá hófst samband þeirra og giftu þau sig fimm árum síðar.

framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Visa í Bólivíu, Kólumbíu, Ekvador, Perú og Venesúela.

Adriana er efnahags- og markaðsfræðingur að mennt. Hún vann um árabil meðal annars sem yfirmaður hjá Santander-bankanum á Spáni og er í dag framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Visa í Bólivíu, Kólumbíu, Ekvador, Perú og Venesúela. Adriana reyndi um tíma að fá vinnu á Íslandi en kom að lokuðum dyrum.

Þar fékk hún þær upplýsingar að fólk frá heimalandi hennar kæmi til Íslands til þess að skúra.

„Ég held að það sé kannski meira í höndum Alþingis að fara aðeins að breyta sínum hugsjónum gagnvart frábæru fólki sem kemur hingað til að búa og sem hefur frábæra menntun; að það sé ekki virt að vettugi heldur sé virt af gæðum þess og kærleika eins og konan mín sem er einhver besta kona sem ég hef á ævi minni kynnst og ég þakka Guði fyrir að vera með henni og að hún vilji vera með mér. Það er mikil synd að það var ekki tekið vel á móti henni með alla sína menntun og þekkingu í fjármálageiranum. Það er til mikillar skammar fyrir okkur Íslendinga að þetta sé raunin. Hún er ótrúlega flott, menntuð og klár og alls staðar þar sem hún kemur er hún dáð og elskuð. Svo fór hún að leita sér að vinnu í ákveðnum stofnunum á Íslandi af því að hana langaði til þess að kynnast íslensku samfélagi og hún mætti oft og tíðum mjög miklum dónum. Hún sótti til dæmis um starf hjá ráðgjafarfyrirtæki sem varð síðar gjaldþrota og þar fékk hún þær upplýsingar að fólk frá heimalandi hennar kæmi til Íslands til þess að skúra. Það er ömurlegt að vita til þess að svona viðvaningar séu fengnir til þess að taka á móti svona frábæru fólki og eyðileggja ímynd Íslendinga því þetta er ekki það sem við stöndum fyrir. Við stöndum fyrir allt annað. Við stöndum fyrir það að vera dugleg og hjálpa hvert öðru. Það er langt í frá að Íslendingar séu yfir heildina rasistar. Við erum það alls ekki. Það kemur hins vegar fram í svona stofnunum þar sem fólk er hrætt um stöðu sína.“

Geir segir að Adriana sé sterk kona og hún hafi orðið hissa á þeim móttökum sem hún fékk í atvinnuleitinni. „Hún áttaði sig á því að við vorum bara ekki með rétta fólkið til þess að starfa í sumum fyrirtækjum. Konan mín er með CV sem enginn á Íslandi hefur; hún ætti að vera bankastjóri á Íslandi og hún myndi setja þessar stofnanir á miklu betra level.“

Geir Ólafsson

Adriana hefur verið búsett á Íslandi undanfarin ár og getað unnið í fjarvinnu vegna heimsfaraldursins en hún mun snúa á vinnustaðinn í Kólumbíu í maí.

Hvað er ástin í augum Geirs Ólafssonar?

„Vinátta og traust er ótrúlega mikilvægt. Það er svo mikið atriði að vera í góðu vináttusambandi. Ég og konan mín höfum aldrei rifist. Við höfum ekki alltaf verið sammála en við höfum aldrei rifist. Við höfum aldrei sagt ljótt orð við hvort annað. Aldrei nokkurn tímann. Við erum búin að vera saman í 10 ár og gift í fimm ár. Við höfum aldrei sagt styggðarorð sem særir hvort annað. Aldrei nokkurn tímann. Þess vegna fannst mér svo skrýtið þegar dóttir okkar var farin að fara í skólann að hún fór að heyra alls konar hluti sem við þurftum svo að útskýra fyrir henni og segja að svona sé þetta hjá sumum fjölskyldum en að við töluðum ekki svona. Svo fór hún í skólann daginn eftir og sagði við krakkana „maður á ekki að tala svona“.

 

Sjúklegur kvíði

Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum þótt Geir syngi oft svo fólk fjölmennir á dansgólfið. Hann var sex ára þegar hann fór að finna fyrir kvíða og í dag er hann með greiningu: Sjúklegur kvíði.

„Ég er búinn að berjast við þetta í mörg ár og ég ræð ekki við það. Þetta er ömurlegur sjúkdómur. Ömurlegur. Og hann hefur oftar en ekki slegið mig niður. Með því að fara að vinna í sjálfum mér og fara til lækna sem hafa hjálpað mér og skrifað upp á lyf þá hef ég hægt og bítandi náð að byggja mig upp. Það sem ég er að gera núna hefði ég kannski ekki getað fyrir fjórum árum síðan.

Þú getur rétt ímyndað þér; ég fer kannski út í bíl og treysti mér ekki til að keyra heim.“

Þögn.

„Þetta er svo sjúklegt. En af því að maður hefur staðið í þessu þá hefur maður líka reynt að hjálpa sér með því að hugsa hvað ég geti gert til þess að mér líði betur. Jú, það er til dæmis að vera ekki upp á kant við neinn. Það er mikið atriði að vera ekki upp á kant við nokkurn mann. Það er bara grundvallaratriði í lífinu.“

Hvað er það erfiðasta sem Geir hefur gengið í gegnum varðandi kvíðann?

„Það er akkúrat þetta; að treysta mér ekki til að gera ákveðna hluti. Þora það ekki. Þora ekki að fara út.“

Þetta er vanlíðan og tilfinning sem maður getur ekki stjórnað.

Þögn.

„Þora ekki að fara út í bíl. Það er óþægilegt. Og vita ekkert. Þetta er vanlíðan og tilfinning sem maður getur ekki stjórnað. Maður verður bara að bíða þangað til þetta líður hjá. Það var til dæmis bara kraftaverk að geta farið einn í flugvél. Ég er búinn að vinna í þessu í mörg ár og var greindur með sjúklegan kvíða. Það sést ekkert á mér af því að ég er svona; ég drekk ekki og reyki ekki og ég er heppinn að eiga góða konu og fjölskyldu. Það eru ekki allir í slíkri stöðu þannig að ég er gríðarlega þakklátur fyrir það.“

Geir drakk áður fyrr. Meira en góðu hófi gegndi.

„Það eru orðin 22 ár síðan ég hætti því. Ég áttaði mig á því að þetta var ekki að hjálpa og ég þakka Guði fyrir það á hverjum degi að vera laus við það; það get ég sagt þér. Ég væri ekki einu sinni að tala við þig í dag ef ég hefði haldið áfram að drekka.“

Hvaða áhrfi hafði drykkjan á kvíðann?

„Bara viðbjóður. Kannski deyfði drykkjan kvíðann í einhvern tíma og svo var það viðbjóður. Svo deyfðist það og svo var það bara viðbjóður. Það var bara ógeðslegt. Hreint út sagt.“

Geir fór í meðferð.

„Ég fór í einhverja smámeðferð. Það var voða gott að komast þarna inn og vera í svona smábómul en svo áttaði ég mig á því að það er enginn að fara að gera þetta fyrir mann nema maður sjálfur og maður verður að bera ábyrgð á þessu sjálfur. Það er þannig.“

Hef ég ekki nefnt eitt styggðaryrði um aðra frambjóðendur eða aðra flokka.

Geir segir að það sé meðal annars vegna kvíðans sem hann leggur áherslu á góð samskipti við alla. „Ef þú ferð á netið þá sérðu hvergi neikvæðar athugasemdir frá mér um aðra. Og í okkar viðtali í dag hef ég ekki nefnt eitt styggðaryrði um aðra frambjóðendur eða aðra flokka. Það er allt of mikið í okkar samfélagi að fólk sé að reyna að bæta ímynd sína með því að níða aðra. Það er ekki leiðin.“

Hann var lagður í einelti í æsku og hann segist vera baráttumaður; hann ætlaði ekki að láta koma illa fram við sig og tekur fram að þeir sem leggja í einelti líður illa. Og kvíðinn hefur gert hann enn sterkari.

 

Dauðinn

Fyrir utan kvíðann er dauði bróðursonar Geirs það erfiðasta sem hann hefur gengið í gegnum. Bróðursonur hans var 17 ára þegar hann lést í bílslysi árið 2011.

„Það er ekki hægt að fara í gegnum neitt erfiðara heldur en það. Það var ógeðslegt. Það var ömurlegt. Ömurleg tilfinning.“

Hvað er dauðinn í huga söngvarans og frambjóðandans?

„Ég er voðalega lífhræddur. Ég er ofboðslega sjúkdómahræddur. Ég er dálítið flókinn hvað þetta varðar en að öðru leyti er ég ekki flókinn.“

Tekur eitthvað við eftir þetta líf?

„Já, ég trúi því að við eigum öll eftir að sjást aftur og koma aftur á jörðina og lifa góðu lífi.“

Það er alltaf sorglegt að sjá á eftir fólki sem manni þykir vænt um.

Fyrrverandi sambýliskona Geirs, Anne Kristine Magnúsdóttir Mikulcakova, lést fyrr á þessu ári.

„Það er alltaf sorglegt að sjá á eftir fólki sem manni þykir vænt um. Við kynntumst árið 1999 og svo vorum við saman í fjögur ár og svo héldum við vinskap alla tíð. Það er engin spurning að Anna Kristine var einn af okkar allra bestu blaðamönnum. Að hafa kynnst henni hafði ótrúlega góð á hrif á mig og hún reyndist mér svakalega vel og ég er henni þakklátur fyrir það. Og ég er þakklátur dóttur hennar en það hefur alla tíð verið vinskapur á milli okkar þótt við séum ekki í miklu sambandi en þá er alltaf þessi kærleikur á milli okkar og það er rosalega gott. Anne Kristine var til dæmis svo hjálpsöm og góð kona og hún var svo mikill fagmaður. Þegar ég var með fyrstu þættina mína á RÚV, en ég var með þætti um Sinatra, þá voru allir að þakka mér fyrir hvað þetta væru frábærir þættir. Þeir voru bara frábærir af því að Anna Kristine bjó þá til.“

Þögn.

„Ekki ég.“

Ein ást deyr.

Önnur kviknar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -