Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Stórsöngvarinn glímir við kvíða: Geir vill gefa 500 þúsund kallinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Geir Ólafsson söngvari hefur marga fjöruna sopið í lífinu. Á sólríkum sumardegi í lok júní er hann ósáttur við þá stöðu sem eiginkona hans, Adriana Patricia Sanchez Krieger, er í en hún hefur sótt um fjölda starfa hér á landi en hvergi fengið og mun á næstunni flytja ásamt dóttur þeirra hjóna, Önnu Rós sem er fimm ára, til heimalands síns Kólumbíu þar sem hún hefur fengið gott starf hjá VISA. Adriana hefur mikla reynslu í viðskiptalífinu erlendis og hefur meðal annars unnið fyrir Santander-bankann á Spáni.

Sumir svöruðu ekki

„Draumur okkar var alltaf að hún fengi vinnu við sitt hæfi hér á Íslandi en því miður þá tókst það ekki og þá fór hún að leita fyrir sér erlendis og sá VISA, stærsta fjármálafyrirtæki í heiminum, hag sinn í að ráða hana í vinnu. Og þá vakna ýmsar spurningar hjá manni. Snýst þetta ekki um hér á landi að vera með eins mikið af hæfu fólki og mögulegt er til þess að sjá um fjármálin í fjármálaheiminum hér heima? Það var misjafnlega tekið á móti henni í atvinnuviðtölum hér á landi. Ég hef heyrt ýmislegt en ég varð vitni að því þegar hún var að koma heim og segja mér hvernig hlutirnir væru. Þetta er ekki Íslendingum sérstaklega til framdráttar. Á einum staðnum var henni sagt að fólk frá heimalandi hennar kæmi yfirleitt til Íslands til þess að skúra. Þetta er okkur til mikillar skammar. Adriana hefur það mikla reynslu, þekkingu og breitt bak að hún var eiginlega mest hissa á þessu. Er landið okkar fyrir ákveðna hópa eða fyrir okkur öll? Sum fyrirtæki svöruðu ekki þegar hún sótti um og sums staðar var henni tjáð að hún gæti ekki sótt um af því að hún talar ekki íslensku. Konan mín talar reiprennandi spænsku, portúgölsku og ensku. Og ef fyrirtæki eru að markaðssetja erlendis þá er ekki töluð íslenska þó ég hvetji alla sem koma hingað til að búa til að læra íslensku.“

Kvíðinn

Mæðgurnar munu flytja til Kólumbíu á næstunni en Geir mun búa áfram á Íslandi en frá upphafi sambands þeirra hjóna þá hafa þau oft verið í fjarbúð þar sem Adriana hefur starfað erlendis.

Geir segir að kvíðinn sem hann berst við sé ein af ástæðunum fyrir því að hann muni búa áfram á Íslandi en hann er í meðferð við honum. Hann var farinn að fá kvíðaköst þegar hann var barn og segir að hann hafi verið lagður í einelti í æsku út af þeim.

„Þegar barn fær kvíðakast þá veit það í raun og veru ekki hvað er í gangi. Ég fékk ekki hjálp vegna kvíðakastanna þegar ég var barn. Ég var kannski öðruvísi og krakkar fundu það. Einelti er auðvitað ömurlegt tæki. Og ég hef miklar áhyggjur af því þegar fullorðið fólk leggur í einelti og er með yfirgang. Það er bara sorglegt. Ég trúi því að maður eigi að reyna að ná því besta fram í fólki og það gerir maður náttúrlega með því að koma eins vel fram og maður mögulega getur hverju sinni. Ég set til dæmis aldrei neitt neikvætt um aðra á Facebook og ég tala aldrei opinberalega illa um neinn. Það er ekki í mínu fari. Ég lærði það þegar ég var lítill strákur að bera virðingu fyrir öðrum. Ég vil ekki sjá einelti. Hvar sem ég verð var við slíkt þá reyni ég að hafa áhrif þannig að það hætti. Einelti er í eðli sínu mjög óheilbrigt ástand sem á ekki að eiga sér stað.“

Kvíðaköstin eru oft slæm

„Ég treysti mér stundum ekki út vegna kvíða eða að keyra. Þetta er svolítið flókið. Ég er samt ekkert hræddur við að hitta fólk og gera einhverja hluti. Það er bara þessi vanlíðan sem ég ræð ekki við. Þetta hefur víðtæk áhrif. Ég er ekki feminn við að tala um kvíðann vegna þess að það hjálpar kannski einhverjum sem eiga börn sem eru haldin einhvers konar kvíða. Það þarf að vinna strax með kvíða og tala um hann. Það var ekki gert þegar ég var strákur. Þetta fékk bara að grassera í mér sem barn og unglingur þannig að ég byrjaði frekar seint að vinna í þessu. Ég er samt miklu betri en ég hef verið. Þetta er þó stundum þannig að mér finnst eins ég ég sá að missa stjórn á hugsunum. Manni finnst allt vera skrýtið og allt í kringum mig einhvern veginn óraunverulegt. Svo kemur rosaleg hræðsla eða ótti sem ég get ekki útskýrt. Þetta er svo skrýtið. Ég geri allt sem ég get til að koma í veg fyrir að þetta verði verra þannig að ég reyni að passa mig á því hvað ég borða og ég drekk ekki. Þá reyni ég að hreyfa mig og lifa heilsusamlegu lífi.“

- Auglýsing -

Hætti að drekka

Geir drakk áður miklu meira en góðu hófi gegndi.

„Já, það eru svo mörg ár síðan. Ég er búinn að vera án áfengis í um 21 ár. Það var fínt að geta sagt skilið við áfengið.“

Hvað með lærdóminn af þessu öllu?

- Auglýsing -

„Ég vona að þetta hafi gert mig að betri manni. Ég hef reynt að einfalda líf mitt þannig að ég sé ekki upp á kant við fólk, sé ekki að standa í rifrildi eða gera eitthvað sem getur triggerað að manni líði verr. Ég er heppinn að mér hefur tekist það þokkalega.“

…gert mig að betri manni. Það hefur vakið athygli að Geir vill taka 500.000 krónur, hálfa milljón, fyrir að lesa inn kveðju hjá fyrirtækinu Boomerang þar sem fólk getur fengið senda kveðjur frá þekktu fólki. Og hann vill ekki sjá þær krónur í eigin vasa.

Geir Ólafsson ásamt eiginkonu og dóttur.

„Það hafa margir beðið mig í gengum tíðina um að senda svona kveðjur og ég hef aldrei tekið krónu fyrir það. Það tekur í raun og veru enga stund að senda kveðju. Svo þegar ég var beðinn um að vera með í þessu Boomerang sem sérhæfir sig í þessu þar sem listamenn fá greitt fyrir kveðjurnar þá ákvað ég að taka 500.000 krónur fyrir kveðjuna og ég ætla að láta hverja krónu renna til einhvers góðs málefnis tengdu börnum. Þetta er kjörið fyrir fyrirtæki og stóra hópa.“

Hvers vegna börn?

„Þegar ég eignaðist dóttur mína þá fór ég að lesa meira um börn og skoða hvað væri að gerast í heiminum hvað varðar börn og það er sorglegt hvernig sums staðar er komið fram við börn sem búa sum við erfiðar aðstæður. Mig langaði til að nota tækifærið og reyna þá að styrkja félög eða einhverja sem eru að vinna í því af alúð að greiða leið barna og hjálpa þeim til betra lífs.“

Söngvarinn, sem er að fara að gefa út nýja plötu með eigin lögum, segir að það að verða faðir hafi breytt öllu.

„Allt í einu var ég ekki að hugsa um sjálfan mig; allt í einu fór ég að hugsa um eitthvað miklu mikilvægara og merkilegra en mig sjálfan. Ég vona að þetta hafi breytt mér til hins betra. Og ég held ég hafi orðið viðkvæmari fyrir vikið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -