- Auglýsing -
Jazzklúbburinn Múlinn heldur áfram með vordagskrá sína á Björtuloftum í Hörpu, miðvikudaginn 27. febrúar. Á tónleikunum kemur fram Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar sem er 14 manna stórsveit sem leikur frumsamda blöndu tónlistar af afrískum meiði.
SJSBB hefur vakið athygli víða um heim en sveitin hefur komið fram á hátíðum og tónleikastöðum á borð við Berlin Jazzfest, London Jazzfestival, Moers fest, Nattjazz, Jazzbaltica, Jazzahead, Mojo Club, Moods, Borgy & Bess, Jazzhátíð Reykjavíkur, Iceland Airwaves, Eldborg og stóra sviðinu á Arnarhóli. SJSBB var opinber tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2015 og hefur gefið út 4 hljómplötur: Legoland (2000), Fnykur (2007), Helvítis Fokking Funk (2010), 4 Hliðar (2013). Hljómsveitin vinnur að nýrri hljómplötu og mun á tónleikunum gera tilraunir með nýtt efni í bland við eldra. Með SJSBB hafa komið fram alþjóðlegir gestirnir Tony Allen (Nígería), Jimi Tenor (Finland), Nils Landgren (Svíþjóð) og Sebastian Studnitzky (Þýskaland).
Alls verða 17 tónleikar í tónleikaröðinni en tónleikadagskráin sem að vanda bæði bæði metnaðarfull og fjölbreytt er gott dæmi um þá miklu grósku sem einkennir íslenskt jazzlíf þar sem allir straumar og stefnur eiga heima. Múlinn er að hefja sitt sautjánda starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Hörpu og Munnhörpuna.