Strætóbílstjóri lenti í vandræðum með einn farþega sinna sem steinsofnaði og vaknaði ekki þrátt fyrir tilraunir. Þótti sýnt að djúpur svefn hans væri tilkominn vegna ölvunar. Lögreglan var kölluð til og náði hún með lipurð að vekja manninn og koma honum út úr vagninum. Hann hélt sína leið.
Annað og alvarlegra tilvik átti sér stað í miðborginni þar sem lögreglu var tilkynnt um aðila sem reyndi að brjóta sér leið inn í hús í miðborginni. Hann var handtekinn á vettvangi en reyndist vera óviðræðuhæfur og þvík ekki hægt að varpa ljósi á afbrot hans. Hann var því læstur inni í fangaklefa, grunaður um húsbrot. Með nýjum degi verður hann yfirheyrður og látinn svara til saka.
Alls gistu þrír aðilar í fangageymslum lögreglu í nótt. Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir annarlegum áhrifum. Þeir munu allir sæta ábyrgð þegar lesið hefur verið úr blóðsýnum þeirra.
Um helgina fór mestur tími lögreglunnar í að rannsaka morðmál helgarinnar þar sem Pólverji um fertugt lést eftir hnífsstungu. Landi hans og sambýlingur er í gæsluvarðhaldi, grunaður um morð.