Frá og með deginum í dag verður rými strætisvagna höfuðborgarsvæðisins skipt upp í tvo hluta. Borði verður strengdur fyrir fremsta hluta vagnanna til þess að aðskilja svæði vagnstjóra og svæði farþega. Farþegar Strætó munu halda áfram að ganga inn um mið- eða aftari dyr vagnsins og Strætó mælir með að viðskiptavinir greiði fargjaldið með því að halda Strætókorti eða Strætóappi á lofti í átt að vagnstjóra.
Sérstakur bráðabirgðabaukur verður staðsettur á farþegasvæði vagnsins fyrir þá sem kjósa að greiða fargjaldið með peningum eða farmiðum. Skiptamiðar verða ekki í boði á meðan þessar breytingar eru gerðar. Á vef Strætó segir að þeir farþegar sem ætli að skipta um vagn skili bíða með að setja pening eða miða í baukinn þar til komið er um borð í síðasta vagn ferðarinnar.
Nánari upplýsingar um aðgerðir Strætó vegna COVID-19 er að finna hérna.