6-0 tap gegn Sviss minnkar ekki vonir íslensks fótboltaáhugafólks.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Belgum, bronsliðinu af HM í sumar, á Laugardalsvelli í kvöld í þjóðakeppni UEFA. Fyrsti leikur liðsins í keppninni, þegar þeir töpuðu 6-0 fyrir Sviss um helgina, gaf ekki ástæðu til bjartsýni um gengi liðsins í þjóðakepnninni. Sparkspekingar hafa keppst við að úthúða liðinu fyrir lélega frammistöðu og eru ekki vongóðir um góða niðurstöðu í leiknum í kvöld. En hvað finnst hinum almenna stuðningsmanni liðsins um frammistöðu þess og hvaða væntingar hefur fólk til leiksins í kvöld? Mannlíf sló á þráðinn til nokkurra eldheitra aðdáenda liðsins og forvitnaðist um hvaða væntingar það fólk hefði til frammistöðu þess í kvöld.
Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Þetta snýst allt um væntingastjórnun og eftir laugardaginn hef ég stillt þeim algerlega í hóf. En fyrir mér snýst fótbolti um að styðja í blíðu og stríðu þó 6-0 tap sé erfitt að kyngja. Ég hef trú á því að strákarnir gíri sig í gang.“
Heldurðu að þeir eigi möguleika á sigri?
„Það er alltaf möguleiki – eigum við ekki að segja það bara? Það getur vel verið að Belgarnir hafi horft á síðasta leik Íslands og talið sér trú um að þetta verði léttur leikur í kvöld – og strákarnir geta þá strítt þeim og sýnt úr hverju þeir eru gerðir. Er ekki ágætt að vona það bara?“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
„Nei, það gerir það ekki. Auðvitað er skemmtilegra að halda með liði sem vinnur og það er meiri stemning. En ég persónulega þoli ekki stuðningsmenn sem sitja bara og tuða í stúkunni. Stuðningur er ekki stuðningur nema hann sé í blíðu og stríðu.“
________________________________________________________________
Páll Valsson, útgáfustjóri Bjarts
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Ég lít svo á að við eigum sæmilega möguleika á að halda jöfnu. En þá þarf allt að ganga upp og það væri mikill sigur.“
Setti frammistaðan í Sviss ekkert strik í reikninginn í trú þinni á liðið?
„Fallið í Sviss var kannski óhjákvæmilegt og hlaut að koma, þótt það væri meira og hærra en maður reiknaði með. En hafa ber í huga að þetta er ein erfiðasta prófraun sem hægt er að hugsa sér, að mæta einu albesta landsliði heims strax eftir þetta feiknarlega tap.“
En þú hefur trú á að strákarnir rífi sig upp og nái jafntefli við bronsliðið af HM í sumar?
„Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnn og kalt mat segir mér að Belgarnir vinni öruggan sigur. En ég vonast auðvitað eftir betri frammistöðu en í Sviss og við megum ekki gleyma því að það er engin skömm að tapa fyrir Belgum, síður en svo.“
________________________________________________________________
Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Þetta verður erfitt, en Íslenska liðið er öflugt og hefur oft sýnt það að það getur vel keppt við öflugustu fótboltalið í heimi. Það kannski bara veltur mest á því hvernig liggur á þeim. Spurning um að trúa á sigurinn.“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
„Nei, fjandakornið, þetta er okkar lið og þarf einmitt mest á stuðningi og tiltrú að halda þegar illa gengur. Það er auðvelt að halda með liði þegar allt gengur eins og í draumi. Ef við stöndum ekki með þeim þegar illa gengur, getum við þá einu sinni sagt að við séum alvöru stuðningsfólk?“
Viltu spá um lokatölur?
„Ég segi 2-1 fyrir Ísland.“
________________________________________________________________
Anna Lea Friðriksdóttir, útgefandi hjá Sölku
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Ég er, til að orða það pent, hæfilega bjartsýn. Belgar eru með svakalegt lið – ég spáði þeim sigri á HM í sumar. En svo er það nú oft þannig að íslenska liðið stendur sig best á móti sterkum andstæðingum. Og þeir ættu náttúrulega að koma snarvitlausir í þennan leik eftir síðustu úrslit.“
Heldurðu að þeir eigi möguleika á sigri?
„Já, það er alltaf möguleiki á sigri í fótboltaleik!“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
„Nei, alls ekki. Í blíðu og stríðu er það ekki?“
Viltu spá um lokatölur?
„Helst ekki! En segjum 1-1 fyrir Ísland.“