Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Styttum vinnuvikuna í komandi kjarasamningum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun

Eftir / Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formaður BSRB.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fréttum að staðan á vinnumarkaði vegna kjarasamningsviðræðna er flókin og viðkvæm. Ástæður þess má meðal annars rekja til þess að launahækkanir síðustu kjarasamninga árið 2015 skiluðu sér ekki með tilætluðum hætti til þeirra tekjulægstu vegna ákvarðana eða athafnaleysis stjórnvalda.

Ástæður þess að góðærið skilaði tekjulágum ekki því sama og þeim tekjuhærri voru einkum þær að skattbyrði þeirra tekjulægri jókst og skerðingar voru á vaxta- og barnabótakerfunum.

Gríðarlegar hækkanir á húsnæðisverði hafa svo ýtt enn frekar undir þessa þróun með auknum kostnaði bæði þeirra sem kaupa og leigja. Óánægju launafólks má ekki síður rekja til ríflegra launahækkana stjórnenda bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði. Þær sýna að þetta takmarkaða svigrúm til launahækkana sem alltaf er talað um þegar verkalýðsfélög semja fyrir sína umbjóðendur virðist ekki eiga við um alla.

Ein af meginkröfum BSRB er að fólk geti lifað af á laununum sínum. Það snýst ekki bara um launin heldur einnig ýmsar tilfærslur svo sem bætur og skattbyrði. Samningar nær allra aðildarfélaga BSRB losna um næstu mánaðarmót og ljóst að hjá flestum aðildarfélögum BSRB verður áherslan á hækkun lægstu launa áberandi, rétt eins og hjá félögum okkar á almenna vinnumarkaðinum. Samhliða því er horft til þess að stjórnvöld komi að málum til að tryggja aukinn kaupmátt þeirra sem minnst hafa milli handanna.

Í þessum kjarasamningum er markmiðið einnig að lenda baráttumáli BSRB til langs tíma og stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 35 með sérstakri áherslu á vinnutíma vaktavinnufólks. Þetta mikla hagsmunamál alls launafólks er lykillinn að því að draga úr neikvæðum áhrifum álags sem virðist aukast ár frá ári. Undirbúningur hefur verið í gangi árum saman með tilraunaverkefnum sem sýna öll það sama; stytting vinnuvikunnar er mikilvægt skref í að bæta líðan starfsfólks og auka möguleika til samþættingar fjölskyldu- og atvinnulífs. Það er vel hægt án þess að það hafi áhrif á afköst í vinnunni.

- Auglýsing -

Aðildarfélög BSRB leggja einnig mikla áherslu á að staðið verði við loforð um jöfnun launa á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Hluti af því samkomulagi sem gert var við ríki og sveitarfélög þegar lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna markaðnum voru samræmd með lögum um mitt ár 2017 var að þeim launamuni verði í kjölfarið eytt. Undirbúningur fyrir það mikilvæga verkefni fór af stað í kjölfarið og BSRB mun beita sér fyrir því að tekin verði þýðingarmikil skref í þá átt í komandi kjarasamningum.

Stóra verkefnið fram undan er því að tryggja jöfnuð og að hlustað verði á kröfur launafólks um réttlæti og sanngirni. Það verður engin sátt á vinnumarkaði á meðan bætt kjör og aukin lífsgæði eru bara fyrir suma en ekki alla.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -