Sumarbústaður í eigu knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hefur verið settur á uppboð hjá Sýslumanninum á Suðurlandi að beiðni Skattsins.
Sumarbústaðurinn sem um ræðir er í Grímsnes- og Grafningshreppi og fer uppboðið því fram hjá Sýslumanninum á Suðurlandi.
Fram kemur á uppboðsvef sýslumanna að eignin sé í „byrjun uppboðs“. Þá segir á vef Skattsins að það sé annað af þremur skrefum í nauðungarsölu. Nauðungarsala er aðgerð til að koma eign í verð á opinberu uppboði til að greiða þær skuldir sem hvíla á eigninni.
Samningur Everton og Gylfa rennur út í sumar
Samningur Everton og Gylfa rennur út í sumar en hann var keyptur til félagsins frá Swansea fyrir 45 milljónir punda árið 2017. Þá hefur Gylfi ekki leikið með landsliði Íslands síðan í nóvember 2020.
Gylfi Þór hefur verið í farbanni frá Bretlandi frá 16. júlí síðastliðnum þegar hann var handtekinn á heimili sínu í Manchester grunaður um að hafa brotið kynferðislega á ungmenni. Eftir handtökuna var honum sleppt lausum gegn tryggingu en settur í farbann sem rennur út 17. apríl næstkomandi.
Gylfi hefur ekkert tjáð sig um málið frá því það kom upp í sumar. Heimildir götumiðla í Bretlandi herma þó að Gylfi hafi harðneitað þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar.
Gylfi var ekki á lista liðsins yfir það leikmenn sem liðið hefur mátt tefla fram í leikjum frá 1. september og má því ekki spila fyrir liðið. Everton hefur gefið það út að hann muni ekki spila með liðinu fyrr en rannsókn lögreglu er lokið.