Þegar landamærum var lokað víða um heim vegna kórónuveirufaraldursins ákvað norska söngkonan Jorunn Undheim að opna þau á sinn hátt með samvinnuverkefni sínu og vina sinna, 40 söngvara og tónlistarmanna frá 18 löndum.
Í hópnum eru íslensku söngvararnir Bjartmar Þórðarson og Rebekka Sif Stefánsdóttir. Hópurinn nýtir krafta internetsins til að vinna verkefnið sem þau segja vera óð til vináttubanda sem landamæralokanir geta ekki rofið.
Hópurinn flytur lagið With a little help from my friends sem Bítlarnir gerðu frægt á sínum tíma, en uppsetning flutningsins er með óvenjulegum hætti.
Allir tóku sinn hluta upp, hver í sínu horni, bæði mynd og hljóð, og svo var afraksturinn klipptur saman í þetta stórskemmtilega myndband.