Sunna Jóhannsdóttir, doktor í lyfjafræði, lést í faðmi fjölskyldunnar 25. maí síðastliðinn eftir erfiða og snarpa baráttu við hvítblæði. Hún var aðeins 35 ára og lætur eftir sig eiginmann og tveggja ára gamla dóttur.
Sunna fæddist í Reykjavík 6. júlí 1985 og ólst að stærstum hluta upp í Grafarvogi. Hún stundaði nám við Menntaskólann við Sund. Síðar hóf Sunna nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands og lauk B.Sc. og M.Sc. gráðum. Strax að loknu mastersnámi í lyfjafræði fékk Sunna tækifæri til að fara í rannsóknatengt doktorsnám við Háskóla Íslands. Sunna sinnti stundakennslu við lyfjafræðideild HÍ og starfaði við rannsóknir og þróun augnlyfja.
Árið 2011 greindist Sunna með hvítblæði og við tók tveggja ára lyfjameðferð. Árið 2013 greindist hún aftur með sama sjúkdóm og fór þá í beinmergsskipti til Svíþjóðar. Eftir að Sunna náði fullum bata fékk hún tæplega átta sjúkdómslaus ár með Ívari eiginmanni sínum og ungri dóttur þeirra.
Sunna bjó alla tíð yfir einstökum baráttukrafti og lét veikindin aldrei aftra sér. Henni er lýst sem hvers manns hugljúfi og fjölmargir fara um hana fögrum orðum í minningargreinum Morgunblaðsins í dag. Eiginmaður hennar og dóttir eru þar á meðal. „Þú varst heimsins besta mamma og eiginkona. Þú varst besti vinur sem ég hef nokkurn tímann átt. Ég kunni ekki neitt, en núna kann ég smá. Þú þroskaðir mig og kenndir mér á lífið. Mér þykir svo vænt um að við höfum fengið að vera fjölskylda. Meira að segja þennan hræðilegasta dag af öllum dögum, daginn sem þú fórst, þakkaði ég fyrir ástina og fann bjartasta ljósið í myrkrinu sem hafði gleypt mig. Það er ekki hægt að elska meira, þú verður alltaf hjá okkur.“
Eldri systir Sunnu minnist líka yndislegrar systur sinnar í minningargrein. Þar kemur hún meðal annars inn á hversu erfið veikindin hafi þjappað fjölskyldunni saman. „Á þessum tíma komu góðu mannkostir þínir svo vel í ljós. Baráttuandi þinn var einstakur, gleðin þín, jarðtenging og jafnvægið, og óendanlegur styrkur þinn og hugrekki. Þú tókst sárum örlögum þínum af þvílíku æðruleysi, fórst aldrei í flótta, afneitun eða biturð. Lést sjúkdóminn aldrei sigra þig. Meira að segja þegar þú tókst síðasta andardráttinn í faðmi fjölskyldunnar varstu ekki sigruð. Áttir fullt eftir, það var bara mennskur kroppurinn og læknavísindin sem gátu ekki meira,“ segir systirin og bætir við:
„Elsku Sunnan mín. Við sem ætluðum að verða gamlar saman, búa hlið við hlið og ala dætur okkar upp sem systur. Ég lofa því að heiðra það og gera þín góðu gildi og verk að leiðarljósi í gegnum líf okkar allra. Ég elska þig alltaf, af öllu hjarta. Ekki hægt að elska meira.“
Vinkona Sunnu á erfitt með að koma sorginni í orð í minningagrein. Glaðlyndari og greindari konu en Sunnu sé vanfundin. „Hjartað mitt grætur yfir því að hafa þig ekki lengur hjá mér. Sorgin skilur eftir sár í hjartanu og ég get ekki skilið hversu ósanngjarnt það er að þurfa að kveðja sólina í lífi mínu. Ég á eftir að sakna þín meira en orð geta tjáð. Ég elska þig alltaf og sendi allan minn styrk til fjölskyldunnar þinnar.“
Útför Sunnu fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag klukkan 15. Athöfnin er öllum opin.