Hæð er stödd suður af landinu sem þokast austur en við Nýfundnaland er lægð á hægri leið til norðausturs og útlit er fyrir að þessi veðrakerfi stjórni veðrinu hér fram á laugardag. Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings um veðrið framundan.
Hægt vaxandi suðlæg átt í dag og þykknar upp með dálítilli vætu en léttskýjað um landið norðaustanvert. Strekkingssunnanátt í kvöld og á morgun með rigningu á köflum en hægari og þurrt austantil á landinu.
Hiti víða 3 til 8 stig í dag en sunnanáttin beinir hlýrra lofti til okkar og minnir okkur á blóm í haga og lánga sumardaga, hiti 6 til 13 stig á morgun, hlýjast á Austurlandi.