Mikil spenna er í ríkisstjórnarsamstarfinu vegna hvalveiðibanns Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra sem á með réttu að renna út á föstudag, 1. september. Ráðherrann hefur engu svarað um það hvort bannið, sem er á forsendum dýraverndar, verði framlengt með nýrri reglugerð eða renni einfaldlega út. Í gærkvöld gat Svandís ekki svarað því hvort hún myndi framlengja eða láta það einfaldlega renna út.
Sjálfstæðismenn eru sumir hverjir ævareiðir vegna bannsins sem ráðherrann kynnti í ríkisstjórn örskömmu áður en veiðar áttu að hefjast snemma í sumar. Undirliggjandi eru hótanir um stjórnarslit og vantraust á Svandísi fyrir afglöp í stjórnsýslunni.
Stjórnendur Hvals hf. höfðu ráðið í stöður á sjó og í landi vegna veiðanna sem standa einungis yfir sumarið. Starfsfólk Hvals hefur verið á launum í sumar en aðgerðarlítið. Fyrir liggur gríðarlegt tjón vegna þessa. Kristján Loftsson, aðaleigandi Hvals hf. hefur boðað að sett verði fram há skaðabótakrafa á hendur íslenska ríkinu vegna málsins. Þá hefur ráðherra verið klagaður til Umboðsmanns Alþingis vegna stjórnsýslu sem sögð er vera fyrir neðan allar hellur, burtséð frá sjónarmiðum um dýravernd. Eitt af skipum Kristjáns lagði úr höfn í gær til að leita uppi hvali og kortleggja stöðu þeirra. Veiðar munu svo hefjast á föstudag ef Svandís aðhefst ekkert.
Það skýrist á næstu tveimur dögum hvort bannið rennur út og hvaða afleiðingar það hefur í stjórnarsamstarfinu. Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, og fleiri þingmenn flokksins talað skýrt í þá veru að það velti á áliti Umbðsmanns Alþingis hvort vantraust verði borið fram á ráðherrann. Það er í raun sama hver niðurstaða Svandísar verður. Trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnar blasir við og einungis spurning um birtingarmyndir þeirrar stöðu. Líf ríkisstjórnar hangir á bláþræði og fullkomin óvissa er um framhaldið.