Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur greint frá því að dóttir hennar Una hafi greinst með krabbamein.
„Kæru vinir, nýlega greindist Una dóttir mín með heilaæxli sem reyndist vera krabbamein,“ skrifar Svandís, í færslu sem hún birti á Facebook fyrir skemmstu.
Segir heilbrigðisráðherra að nú taki við löng og ströng krabbameinsmeðferð. „Mitt verkefni verður að styðja hana í því ferli ásamt fjölskyldu og vinum. Þetta er stærsta verkefni lífs míns.“
Kveðst Svandís ætla, með hjálp samstarfsfólks og fjarfunda, að sinna áfram störfum heilbrigðisráðherra. Muni hún skipuleggja sína vinnu á næstunni í samræmi við breyttar aðstæður. Og segist ekki ætla að fjalla meira um þetta mál opinberlega, að svo stöddu.