Enn hafa ekki náðst samningar milli Sjúkratrygginga og sálfræðinga um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að hún hafi tekið frá fjármuni í verkefnið, en nú þurfi að bíða þess að samningar náist.
Fram hefur komið að mikil fjölgun hefur orðið á bráðakomum og innlögnum á Barna- og unglingageðdeild Landspítala í kórónuveirufaraldrinum: Bið er eftir þjónustu hefur lengst um tvo mánuði, en fram kom í skýrslu um áhrif Covid 19 á geðheilsu barna og unglinga að 70% fleiri börn og unglingar fái tilvísun í meðferð á BUGL vegna átröskunar.
Svandís er brött og segir í samtali við RÚV að „ég lét ríflega hundrað milljónir inn til BUGL bara núna á dögunum. Þannig að ég vonast til að það hjálpi eitthvað til. Það auðvitað leysir ekki vandann. Höfum í raun og veru aukið um milljarð á ársgrundvelli inn í þjónustuna og svo líka sértækar aðgerðir vegna Covid 19, 540 milljónir á ári, 2020 og á þessu ári.“
Áætlað er að fjölga sálfræðingum hjá heilsugæslu en nýlega kom fram í fréttum að sögulega fáir geðlæknar séu við störf á Landspítalanum og nýliðun nánast engin í stéttinni.
„Það eru skilst mér þó nokkrir sem útskrifast 2022 og ’23. Það hefur verið sett í gang á mínum tíma þetta landsráð um menntun og mönnun, þannig að við séum með þær upplýsingar á einum stað hvernig framtíðarsýnin er varðandi mönnun einstakra fagstétta í heilbrigðisþjónustu,“ segir heilbrigðisráðherra en til stendur að ríkið niðurgreiði sálfræðiþjónustu en mikil bið hefur verið á að það komist á framkvæmdastig.
„Ég hef fjármagnað þetta nú þegar, með hundrað milljónum nú þegar, en það hefur ekki gengið vel að koma þeim peningum í lóg vegna þess að samningar hafa ekki gengið við sjálfstætt starfandi sálfræðinga,“ sagði Svandís.