Athafnamaðurinn Svanur Kristbergsson vill selja glæsilegan sumarbústað sinn við Þingvallavatn; einstakur bústaður á stórkostlegum stað; teiknaður af Pálmari Kristmannssyni árið 2002.
Pálmar þessi hefur teiknað mikið af húsum og má til dæmis nefna Blikanes 22; eitt dýrasta hús höfuðborgarsvæðisins.
Bústaðurinn á Þingvöllum sem Svanur hefur nú sett á sölu er tæpir níutíu fermetrar að stærð; var ekkert til sparað við byggingu hans og í kringum húsið er tæplega hundrað og áttatíu fermetra verönd.
Það er Heimili fasteignasala sem „kynnir til sölu glæsilegt heilsárshús á besta stað við Þingvallavatn. Húsið er um 90 fm að stærð en að auki eru tvær geymslur í kjallara. Glæsilegt útsýni yfir Þingvallavatn og til fjalla.
Húsið er staðsett við Valhallarstíg Nyrðri nr. 10, í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og stendur í einkar fallegum skógivöxnum lundi á 4.000 fm lóð.
Ekkert verð er sett á bústaðinn – heldur óskað eftir tilboðum, en líklegt má þykja að þessi glæsilega eign athafnamannsins Svans sé í dýrari kantinum.