Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.4 C
Reykjavik

Svara gagnrýni og segja meirihluta framleiðslunnar fara fram hér

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslenska auglýsingastofan Peel hyggst ráða önnur innlend framleiðslufyrirtæki og fleira vant auglýsingafólk til að vinna með sér að markaðsátaki sem ætlað er að laða erlenda ferðamenn aftur til landsins. Eins og kom fram í frétt Mannlífs í gær var Peel hlutskörpust í félagi við alþjóðlegu auglýsingastofuna M&C Saatchi í útboði Íslandsstofu vegna herferðarinnar sem á að hefjast um það leyti sem landið verður opnað að nýju.

Sjá einnig: Erlend auglýsingastofa fær það verkefni að kynna Ísland – 1,5 milljarður úr landi

„Ég er sammála Guðmundi Pálssyni hjá Pipar, sem hefur tjáð sig um úrslit útboðsins í fjölmiðlum í dag, um að það skiptir miklu máli að hafa öflugan auglýsinga- og markaðsgeira á Íslandi,“ segir Magnús Magnússon, stofnandi og framkvæmdastjóri Peel í tilkynningu.

Við ætlum að ráða til okkar fjölda íslenskra undirverktaka á ýmsum sviðum framleiðslunnar og því munu margir fleiri njóta góðs af verkefninu

Samkeppnin sýnir metnað íslenskra auglýsingastofa

„Sú mikla samkeppni sem sást í útboðinu er í mínum huga til vitnis um hversu öflugar og metnaðarfullar íslenskar auglýsingastofur eru. Þetta er verkefni sem allar íslensku stofurnar vildu fá og flestar buðu fram samstarf erlendra og innlendra aðila. Við erum afar auðmjúk yfir því að hafa orðið fyrir valinu í samkeppni við svo margar flottar stofur. Okkar sýn á þetta er sú að við varðveitum best gæðin í íslenskum auglýsingageira með því að eiga í samstarfi við fremsta auglýsingafólk í heimi,“ segir Magnús.

Magnús Magnússon

„Rétt eins og íslensk kvikmyndagerð og dagskrárgerð hefur notið þess ríkulega að þekking hefur byggst upp í stórum alþjóðlegum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem tekin hafa verið upp hér á landi, eins og Star Wars og Game of Thrones. Verkefnið sem við erum að takast á hendur snýst um að markaðssetja Ísland í útlöndum og til að ná góðum árangri þá þurfum við að vinna með fólki sem þekkir vel til á þessum mörkuðum og starfar þar alla daga. Öll íslensk flugfélög hafa til dæmis í gegnum árin leitað til erlendra fyrirtækja varðandi aðstoð við að koma sér á framfæri við ferðamenn í hverju landi fyrir sig. Að sama skapi vinna flestar íslenskar auglýsingastofur fyrir erlend vörumerki sem leitast eftir þekkingu þeirra við að markaðssetja sig og auglýsa hér á landi. Domino‘s í Bretlandi, sem er eigandi Domino‘s keðjunnar hér, notast við íslenska auglýsingastofu, íslenskt veffyrirtæki og íslenska samfélagsmiðlastofu. Sama má segja um Coke, Pepsi, IKEA eða Uncle Ben‘s hrísgrjón,“ segir Magnús og segir verkefnið nú ekkert öðruvísi.

- Auglýsing -

Til standi að auglýsa Ísland sem áfangastað í öðrum löndum og stór hluti af framleiðslunni muni fara fram hér því þekkingin á landinu sem markaðssett er skipti máli.

„Við ætlum að ráða til okkar fjölda íslenskra undirverktaka á ýmsum sviðum framleiðslunnar og því munu margir fleiri njóta góðs af verkefninu. Staðreyndin er líka bara sú að íslenskt auglýsingafólk er mjög öflugt og félagar okkar í þessu verkefni á M&C Saatchi hafa nefnt það sérstaklega við okkur að þeim finnist magnað hvað auglýsingar eru í háum gæðaflokki hér, miðað við hvað þetta er fámennt samfélag.“

Peel varð í efsta sæti í útboðinu sem hljóðaði upp á 300 milljónir króna og þar sem valnefnd skipuð 13 ólíkum sérfræðingum, auk Ríkiskaupa, völdu á milli fimmtán bjóðenda. Flest tilboðin sem bárust byggðust einhvers konar á samstarfi innlendra og erlendra auglýsingastofa. Peel varð efst í 9 af 11 valþáttum en auglýsingastofan Pipar var númer tvö í röðinni og munaði mjóu á þessum tveimur fyrirtækjum. Matsþættirnir, voru sem áður segir, fjölmargir og tóku meðal annars tillit til gæði hugmyndavinnu, verðs, reynslu og styrkleika teymanna.

- Auglýsing -

Peel kom að Inspired by Iceland herferðinni

Starfsmenn og stofnendur Peel eru fyrrverandi starfsmenn Íslensku auglýsingastofunnar og komu þeir að Inspired by Iceland herferðinni sem stjórnvöld settu af stað, í samvinnu við ferðaþjónustufyrirtæki, sumarið 2010 til að fá fólk til að ferðast hingað til lands eftir gosið í Eyjafjallajökli. Inspired by Iceland hlaut fjölda virtra verðlauna og var unnin í samstarfi við alþjóðlegu auglýsingastofuna The Brooklyn Brothers.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -