Verulega hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti um leið og neyðarstig almannavarna vegna Covid-19. Frá því sem verið hefur eru sóttvarnaraðgerðir hertar svo mjög að þjóðfélagið lamast á nýjan leik.
Búið er að loka líkamsræktarstöðvum, krám, skemmtistöðum og spilasölum. Þjóðarbókhlaðan hefur skellt í lás og hið sama á við um Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Þá er búið að útiloka áhorfendur frá öllum íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra er heimilt að hafa 100 áhorfendur að því uppfylltu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og þá er grímuskylda.
Fjöldatakmarkanir miðast nú við að hámarki tuttuga manns. Gestur á sundstöðum mega aðeins vera að hámarki 50 prósent af leyfilegum fjölda lauganna. Eins metra reglan verður áfram í gildi en þar sem ekki er hægt að tryggja þá nándarfjarlægð er skylda að nota andlitsgrímur. Talandi um grímur þá hefur Strætó nú skyldað alla farþegar sína til að bera grímur, aðrir fá hreinlega ekki far með vögnunum. Þá er nú í gildi grímuskylda í þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar og félagsmiðstöðvum eldri borgara.
Þó má finna einhverjar undantekningar frá fjöldatakmörkunum sóttvarnaryfirvalda. Til að mynda mega Alþingi starfa áfram með óbreyttu sniði og hið sama á við um björgunarsveitir, dómstóla, heilbrigðisstarfsfólk, lögreglu og slökkvilið. Við útfarir mega 50 manns koma saman og í framhalds- og háskólum fer talan niður í 30 manna hámark. Engar hömlur gilda í leik- og grunnskólum. Leikhúsin mega hafa opið og taka á móti 100 manns sem allir þurfa að bera grímur og keppnisíþróttir verða áfram leyfðar með 50 manna hámarksfjölda.