Sóknarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, Svava Rós Guðmundsdóttir, er gengin í raðir NJ/NY Gotham í Bandaríkjunum.
Hún var áður búin að afþakka tilboð frá Bandaríkjunum en var ákveðin í að stökkva á tækifærið ef það byðist ánýjan leik; sem og hún gerði.
Undanfarið hefur Svava þurft að slá á orðróm þess efnis að hún hefði fallið á læknisskoðun hjá enska knattspyrnufélaginu West Ham í London, en Svava segir það ekki rétt:
„Við fórum út og þegar við komum á svæðið var samningurinn ekki eins og búið var að semja um áður en ég fór út. Það var búið að breyta samningnum um það leyti sem Gotham kom aftur inn í myndina og þá afþakkaði ég boð West Ham þótt samningurinn stæði enn til boða,“ sagði hún í samtali við Fréttablaðið.
Kemur fram að hjá Gotham muni Svava leika undir stjórn Juan Carlos Amorós, en hún segir að hann hafi áður sýnt sér áhuga:
„Þjálfarinn á stóran þátt í þessu, enda hefur hann hefur reynt áður að fá mig til sín. Ég er búin að tala mikið við hann og er hrifin af því hvernig hann vill spila fótbolta og var í miklum samskiptum við hann. Ég er mjög spennt að vinna með honum enda gerði hann frábæra hluti með Houston Dash seinni hluta síðasta tímabils. Liðið er að vinna í endurnýjun. Það er komið nýtt þjálfarateymi og fjölmargir nýir leikmenn. Það er verið að byggja upp liðið með háleit markmið sem er spennandi.“