„Þegar árás Rússlands inn í Úkraínu hófst þá hélt ég að um þetta mál gætu ekki verið skiptar skoðanir. En mér skjátlaðist. Pabbi sagðist ætla að hringja til baka af því að þau voru að hlusta á ávarp Pútíns til þjóðarinnar. Þegar hann sagði nokkrum dögum seinna „þetta er í raun ekki stríð“ og að engum sprengjum væri kastað á Kænugarð heldur væru þetta bara „æfingaskot úkraínsks loftvarnakerfis“ þá áttaði ég mig á því hversu kröftugum áróðri er beitt og að hann er því miður að virka,“ segir Svetlana Álfheiður, rússnesk kona búsett hér á landi.
„Ég á ekki orð til að lýsa tilfinningum mínum vegna ástandsins. Þetta er súrrealískt og ég held að ég sé ennþá í hálfgerðri afneitun. Ég get ekki trúað að árið 2022 geti allsherjarstríð verið eina mögulega lausnin í samskiptum tveggja þjóða sem eiga þar að auki svo margt sameiginlegt, sem deila sameiginlegri sögu og menningu og sem hafa lifað hlið við hlið öldum saman. Sumir kaflar í þeirri sögu voru kannski ekki bjartir – en ég er sannfærð um að að hlutverk stjórnmálamanna felist meðal annars í því að tryggja að við lærum af þeim og byggjum gott traust og samvinnu milli þjóðanna. Mér er sama hversu góða afsökun Rússlandsstjórn getur gefið fyrir því að hafa farið í stríð. Það er óafsakanlegt.
Ég get ekki annað en hugsað að miðað við ástandið í dag voru kannski kjarnorkustríðsæfingarnar okkar í æsku ekki tilgangslausar.
Hins vegar get ég ekki ímyndað mér hvaða töfralausn væri hægt að grípa til núna. Á einni viku virðist Rússland hafa glatað hálfri öld af jákvæðri þróun og stigið risaskref aftur í tímann. Samkvæmt heimsáliti breyttist landið úr nútímalandi og gildum þátttakanda í alþjóðlegum málum í árásargjarna villiþjóð lausa við alla skynsemi, sem lætur sem grunnmannréttindi séu ekki til. Ég get ekki annað en hugsað að miðað við ástandið í dag voru kannski kjarnorkustríðsæfingar okkar í æsku ekki tilgangslausar.
Sem betur fer eru flestir sem ég þekki sömu skoðunar og ég og finnst ástandið vera það hryllilegasta sem þeir hafa lent í á sinni lífstíð hingað til. Fyrir stuttu héldum við sakleysislega að Covid hefði verið það versta. Eins og er, er erfitt fyrir mig að hugsa um framtíð rússneskrar þjóðar. Að öllu óbreyttu munu framtíðarhorfurnar verða sársauki, fátækt, sundrung fjölskyldna – annaðhvort bókstaflega hjá þeim sem eiga ættingja í Úkraínu eða út frá ágreiningi vegna skoðana – algjör einangrun frá alþjóðasamfélagi og kúgun allrar mótspyrnu innan Rússlands. Eins og á verstu tímum Sovétstjórnar er almenningur í Rússlandi handtekinn og fangelsaður fyrir að tjá skoðanir sínar, fyrir að fara á friðsamleg mótmæli og fyrir að vilja kjósa fólk sem stendur fyrir heilbrigða skynsemi og þráir að leggja lið í þróun landsins í takt við nútímann.“
Ég votta úkraínsku þjóðinni innilega samúð mína og vona að þjóðir heims geti unnið að því í sameiningu að stoppa þessa hörmung.
Svetlana segist varla geta ímyndað sér hvað ríki í hjörtum úkraínsks almennings. „Á hverjum degi heyrum við fréttir af fólki sem þarf að yfirgefa heimili sín og flýja burt til að bjarga börnum sínum frá stríðinu. Hvaða hryllingur ríkir í hjörtum þessara barna? Líklegast lítur það út eins og verstu martraðir hafi orðið að veruleika og skrímsli úr ævintýrabókum séu að lifna við. Og rússneska þjóðin er allt í einu orðin þetta skrímsli. En orrusturnar og blóðið er raunverulegt.
Ég votta úkraínsku þjóðinni innilega samúð mína og vona að þjóðir heims geti unnið að því í sameiningu að stoppa þessa hörmung. Ég óska þess heitt að þjáningum beggja þjóðanna muni linna og við öll getum vaknað upp af þessari martröð – og þótt skaðinn sé eflaust nú þegar skeður, er hann ef til vill ekki alfarið óafturkræfur.“
Illa lyktandi gasgrímur
Svetlana fæddist og ólst upp í nágrenni Moskvu en foreldrar hennar fluttu þangað áður en hún fæddist. „Þau komu frá borg sem heitir Samara og liggur í um 1.000 kílómetra fjarlægð suðaustur frá Moskvu. Þau eru afar einlægt og harðduglegt fólk sem trúði á yngri árum mjög innilega á sósíalíska drauminn, þannig að það má segja að uppeldisár mín í dæmigerðu, sovésku umhverfi hafi einkennst mjög af rómantískum og útópískum keimi. Foreldrar mínir störfuðu á rannsóknar- og vísindastofnunum ríkisins. Þegar pabbi minn fékk ekki að vera flugmaður, sem var draumur margra drengja sem fæddust stuttu eftir heimsstyrjöldina síðari, út af lélegri sjón þá valdi hann menntun á sviði rafiðnaðar og vann svo á rannsóknarstofu ríkisins í þróun vélrænna tækja (Scientific Research Institute of Electromechanics). Mamma lærði geimferðaverkfræði við Háskóla geimflugiðnaðar í Samara (Aerospace University) og starfaði síðar á ríkisstofnun sem þróaði meðal annars fyrsta sovéska geimfarið, Buran, sem part af geimferðaáætlun Rússa.“
Það má fullyrða að gagnrýnin hugsun hafi hvergi verið í kennsluáætlun á þessum tíma.
Svetlana segir að lífið hafi verið einfalt og framtíðin björt þegar hún var lítil. „Á grunnskólaaldri fór ég ein út í búð til að kaupa mjólk í þríhyrndum mjólkurfernum, klassíska rússneska rúgbrauðið og einu kextegundina sem til var. Ég hafði gaman af því að fara í maíkröfugöngur, sitja á öxlunum á pabba og veifa litla, rauða fánanum. Ég hafði líka gaman af því að teikna og gat setið dögum saman við þá iðju að leira persónur úr uppáhaldsteiknimyndunum mínum. Ég lærði samt nógu snemma að list var „ekki alvöru starf“ – enda ekki nógu gagnlegt fyrir samfélagið – og trúði því án þess að efast; eins og ég trúði öllu öðru sem mér var sagt og kennt. Það má fullyrða að gagnrýnin hugsun hafi hvergi verið í kennsluáætlun á þessum tíma.
Mér leiddist ávallt í skólanum; það var of auðvelt að læra utanbókar skoðanir annarra en fyrir okkar eigin fengum við lægri einkunnir. Það var helst gaman þegar kennslan var lögð niður fyrir æfingar á svokölluðum „dögum almannavarna“. Þá kannski heyrðist loftárásarviðvörun í miðjum stærðfræðitíma og við þurftum að setja á okkur illa lyktandi gasgrímur í snatri, mynda einfalda röð og koma okkur í næsta loftvarnarbyrgi á mettíma. Íþróttakennarinn var á klukkunni og tilkynnti okkur síðar hvaða bekkir náðu að lifa þykjustukjarnorkuárásina af.“
Svetlana segir að árið 1991 hafi breytt öllu. „Ég sá brostna drauma og ótta í augum foreldra minna. Ríkisstofnanir fengu ekki nægilegan fjarstuðning lengur og margar voru lagðar niður. Fljótlega urðu þau bæði atvinnulaus en þau voru alls ekki nógu praktísk til að átta sig fljótt á óreiðu perestrojkunnar og að koma sér vel fyrir á nýja, frjálsa markaðnum. Peningur var af skornum skammti, stundum var ekkert til að borða og við fengum okkur steiktar kartöflusneiðar í öll mál. Það tók fjölskylduna þó nokkur ár að koma sér á fætur á ný og hafa efni á einhverju öðru en helstu nauðsynjum.“
Dúfnahólar 10
Svetlana segir að það hafi verið mikill gleðidagur þegar faðir hennar fékk vinnu sem rafvirkjameistari í banka og keypti sitt fyrsta VHS-tæki. „Af ótrúlegustu tilviljun var þetta augnablik líka upphaf sögunnar um tengingu mína við Ísland.
Önnur myndin á spólunni var ónefnd lággæða framtíðargeimverumynd en hin var engin önnur en Sódóma Reykjavík.
Einn góðan veðurdag kom pabbi minn heim með vídeóspólu sem hann keypti af handahófi á svarta markaðnum; löglegar útgáfur af útlenskum myndum voru því miður ekki eins aðgengilegar þá. Önnur myndin á spólunni var ónefnd lággæða framtíðargeimverumynd en hin var engin önnur en Sódóma Reykjavík. Einhver snillingur talsetti hana á rússnesku með því að þýða samtölin úr enskum texta. Hún varð á augabragði uppáhaldsmyndin á heimilinu – við stóra systir horfðum á hana ótal sinnum og erum enn þann dag í dag að skiptast á einkahúmorsfrasa á borð við „Dúfnahólar tíu“. Þar heyrði ég íslenskuna í fyrsta sinn á bak við rússneskt tal og sagði í gríni að einn daginn myndi ég læra þetta skrýtna og töfrandi tungumál. Í myndinni var líka svo skemmtilega furðulegt fólk sem mig langaði ótrúlega mikið til að hitta. Síðan þá fékk ég áhuga á öllu sem tengdist Íslandi, en mörgum árum seinna þegar ég var að læra málvísindi við Háskólann í Moskvu komst ég að því að það var kennari á deildinni sem kenndi íslensku – og þá var ekki aftur snúið.“
Svetlana kom fyrst til Íslands árið 2005 til að halda áfram að læra íslensku við Háskóla Íslands. „Mér fannst fyrst eins og ég hefði lent í röngu landi – þótt ég hefði verið að læra íslensku í um eitt og hálft ár áður en ég kom þá skildi ég ekki baun. Það er kannski skiljanlegt með tilliti til þess að eina orðabókin sem við gátum notað við kennslu við Háskólann í Moskvu var orðabók eftir Valerij Berkov sem var gefin út árið 1962. Þannig að það tók mig lengri tíma að klára námið og ég var einu ári lengur en ég ætlaði. Svo annað og það þriðja. Og nú, 17 árum seinna, held ég að foreldrar mínir séu farnir að átta sig á því að ég er ekki endilega á leiðinni heim.“
Neikvæðni og hræðsluáróður
Svetlana segir að í fyrstu hafi henni fundist lífið á Íslandi mjög frábrugðið lífinu sem hún lifði í Moskvu. „Ég þurfti ekki að taka strætó og svo lest og neðanjarðarlest til að komast í háskólann. Samskipti milli fólks voru mjög óformleg og innileg. Ólíkt Rússlandi þar sem ég þurfti að ganga með gassprey í vasanum á leiðinni heim á kvöldin var ég alveg örugg á röltinu um miðbæ Reykjavíkur á hvaða tíma dags sem var. Fólk var hjálpsamt og hver stóð með öðrum. Það minnti mig jafnvel á góða hlið Sovéttímans þar sem fólk upplifði sig eins og eina stóra fjölskyldu.
Það tók mig mjög langan tíma að læra að hugsa út fyrir Sovétkassann minn og enn í dag rekst ég annað slagið á ranghugmyndir sem eru enn fastar í huga mínum og sem ég trúi enn.
Smám saman áttaði ég mig samt á því að ég passaði engan veginn vel inn í þennan frjálslynda heim þar sem ég var mjög ferköntuð og skoðanir mínar voru í raun eitthvað sem ég hafði lært frekar en myndað sjálf. Það tók mig mjög langan tíma að læra að hugsa út fyrir Sovétkassann minn og enn í dag rekst ég annað slagið á ranghugmyndir sem eru enn fastar í huga mínum og sem ég trúi enn. En nú er ég vön að draga allt sem ég veit í efa.
Fyrstu árin var ég að reyna að aðlagast íslensku samfélagi og reyndi að láta af öllum rússneskum hegðunarhætti og verða „íslensk“. Ég varð það að sjálfsögðu ekki, en það var nóg til þess að ég færi að missa tengsl við rætur mínar og þá fann ég fyrir þeirri þörf að líta til baka og komast að því hver ég er og hvað skiptir máli fyrir mig. Ég þurfti að uppgötva hvað það þýðir fyrir mig að vera Rússi – hvað það er sem gerir mig öðruvísi en aðra heimsborgara, en hvernig við erum lík. Það leiddi óumflýjanlega að persónulegri krísu sem ég hef glímt við í nokkur ár.
Það væri kannski góð myndlíking að segja að ég hafi verið eins og matrjóska sem Íslendingar kalla babúsku; hulin djúpt inni með mörg lög af fölskum eiginleikum sem ég þurfti að losa mig við til að komast að kjarnanum og klæða mig svo í sum þeirra upp á nýtt. Kannski var það þessi leit að ekta eðli mínu sem leiddi mig svo í jógaiðkun, en ég hef stundað jóga af krafti í mörg ár og er nýlega farin að kenna það.
Foreldrar mínir segja jafnvel sjálfir að þaðan streymi helst neikvæðni og hræðsluáróður.
Í gegnum árin fannst mér þó sífellt erfiðara að deila persónulegum sigrum og uppgötvunum mínum með mömmu og pabba – ég fór að taka eftir því að álit þeirra á sumum „vestrænum“ gildum er fremur neikvætt og þau eru oft ekki tilbúin til að heyra aðrar skoðanir en þær sem tíðkast úti. Ég er löngu hætt að fylgjast með sjónvarpinu í Rússlandi en ég fæ nóg af því á stuttum ferðum heim. Foreldrar mínir segja jafnvel sjálfir að þaðan streymi helst neikvæðni og hræðsluáróður.“