Tilkynnt hefur verið hvaða bækur keppa um norrænu glæpasagnaverðlaunin Glerlykilinn í ár og það er Lilja Sigurðardóttir sem hefur verið tilnefnd til að keppa fyrir Íslands hönd fyrir bókina Svik.
„Ég er afskaplega stolt af því að vera tilnefnd til þessara virðulegu glæpasagnaverðlauna með þessum frábæru höfundum,“ skrifar Lilja á aðdáendasíðu sinni þar sem hún tilkynnir um tilnefninguna.
Aðrir höfundar sem tilnefndir eru til Glerlykilsins í ár eru:
Frá Danmörku: Gretelise Holm, Dødfunden
Frá Finnlandi: Eva Frantz, Den åttonde tärnan
Frá Noregi: Jo Nesbø, Kniv
Frá Svíþjóð: Camilla Grebe, Skuggjägaren
Hver hreppir hnossið að þessu sinni verður tilkynnt í ágúst.
Lilja var einnig tilnefnd til Glerlykilsins í fyrra fyrir bókina Búrið, en í það skiptið var það Silfurvegurinn eftir Stinu Jackson sem valin var besta glæpasagan á Norðurlöndunum það árið.