Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Svo miklu meira en bara þingsæti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þingkosningarnar í Bandaríkjunum síðastliðinn þriðjudag voru um margt sögulegar og munu hafa víðtæk áhrif á þróun mála í landinu næstu árin. Í raun stendur hvorugur flokkur uppi sem sigurvegari. Demókratar hirtu meirihlutann af repúblíkönum í fulltrúadeildinni á meðan þeir síðarnefndu juku við meirihlutann í öldungadeildinni. Þetta var allt saman í kortunum fyrir kosningar. Donald Trump getur bent á að þeir þingmenn sem fylgja hans stefnu hafi notið velgengni á meðan demókratar fá fjölmörg tækifæri til að gera forsetanum lífið leitt næstu tvö ár, þótt niðurstaðan sé nokkuð undir væntingum þeirra. En það var fleira undir en bara þingsæti, líkt og rakið er hér að neðan. Kosið var um breytingar sem eflaust munu hafa meiri og varanlegri áhrif til framtíðar litið heldur en þingmannaskipan þetta tiltekna kjörtímabil.

 

Fullt af alls konar

Þetta voru kosningar kvenna. Fjöldi kvenna í framboði hefur aldrei verið meiri og aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar til áhrifa, bæði í Washington og ríkisþingunum. Hin 29 ára Alexandria Ocasio-Cortez sigraði í kjöri til fulltrúadeildar í New York og varð þar með yngsta konan í sögunni til að gegna þingmennsku. Konur voru sömuleiðis sagðar áhrifamesti kjósendahópurinn í aðdraganda kosninga. Jared Polis, demókrati frá Colorado, varð fyrsti samkynhneigði (opinberlega) ríkisstjórinn í sögu Bandaríkjanna, fyrstu múslimakonurnar náðu kjöri sem og fyrstu konurnar af ætt frumbyggja.

 

Klofnari en nokkru sinni fyrr

- Auglýsing -

Niðurstaðan sýnir að Bandaríkin eru klofnari en nokkru sinni fyrr. Grasrót flokkanna og hugmyndafræði er eins ólík og hugsast getur og endurspeglaðist þetta í kosningabaráttunni. Demókratar herjuðu á konur, minnihlutahópa og yngstu kynslóðina í borgum og úthverfum á meðan repúblíkanar töluðu til hvítra karlmanna og íbúa í dreifbýli. Í öllum þessum hópum var metkosningaþátttaka. Þetta er bara upptakturinn að því sem koma skal fyrir forsetakosningarnar 2020 þar sem Trump mun sækjast eftir endurkjöri. Strax eftir kosningar sendi hann tilvonandi frambjóðendum þau skilaboð að ef þeir spila með honum muni þeim farnast vel.

 

Baráttan fyrir 2020 er hafin

- Auglýsing -

Kosningarnar voru prófraun fyrir þá demókrata sem freista þess að bjóða sig fram gegn Donald Trump að tveimur árum liðnum. Eftir úrslit þriðjudagsins er staldrað við nafn tveggja kvenna sem unnu góða sigra. Annars vegar Amy Klobuchar sem vann stórsigur í Minnesota og Kirsten Giliband frá New York en báðar eiga þær digra sjóði úr kosningabaráttunni. Sherrod Brown kom sterkur út úr Ohio og er þegar farinn að gæla við framboð en þrjár vonarstjörnur flokksins urðu fyrir tjóni, Andrew Gillum, Stacey Abrams og Beto O´Rourke. Af þessum er O´Rourke líklegastur en hann fór nærri því að fella Ted Cruz í Texas.

 

Marijúana-byltingin heldur áfram

Samhliða þingkosningum er kosið um fjölda annarra málefna. Þannig var marijúana lögleitt í þremur ríkjum Bandaríkjanna. Í Michigan var sala á efninu til einkanota gefin frjáls á meðan Missouri og Utah lögleiddu marijúna í lækningaskyni. Orkufyrirtæki unnu einnig stóra sigra. Í Colorado tókst þeim að koma í veg fyrir bann gegn olíuborun á stórum svæðum í ríkinu, kjósendur í Washington komu í veg fyrir kolefnisgjöld á stórnotendur og í Arizona var felld tillaga um hlutfall sjálfbærrar orku. Orkufyrirtækin eyddu tugum milljóna dollara í þessa kosningabaráttu. Þá munu yfir milljón manns í Flórída bætast á kjörskrá eftir að íbúar þar samþykktu að veita fólki á sakaskrá kosningarétt að nýju. 9% kosningabærra manna í Flórída eru á sakaskrá, að stórum hluta eru þeir úr minnihlutahópum.

Birtist fyrst í Mannlífi 9. nóvember.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -