Fimmtudagur 16. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Svo miklu meira en fótboltaleikur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikið verður um dýrðir í Atlanta á sunnudaginn þegar leikurinn um Ofurskálina svokölluðu, Super Bowl, fer fram. Þetta er í 53. skipti sem leikurinn fer fram en í ár verða það New England Patriots og Los Angeles Rams sem keppa um titilinn eftirsótta. En fyrir marga er leikurinn sjálfur algjört aukaatriði því umstangið í kringum leikinn er slíkt að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Það hefur ekki vantað dramatíkina í kringum leikinn í ár, frekar en fyrri ár. Hrútarnir frá Los Angeles komust í úrslitaleikinn eftir einhverja umdeildustu dómaraákvörðun fyrr og síðar, því í undanúrslitaleiknum gegn New Orleans Saints braut varnarmaður Rams augljóslega á sóknarmanni Saints og hafði þar með líklegt vallarmark af Saints á ögurstundu. En á einhvern óskiljanlegan hátt dæmdu dómararnir ekkert og hafa deilur um atvikið meira að segja endað inni á gólfi Bandaríkjaþings.

Flestra augu munu vafalaust beinast að leikstjórnanda New England Patriots, goðsögninni Tom Brady. Þar er á ferð einn allra mesti sigurvegari bandarískra íþrótta fyrr og síðar. Þetta verður í 9. skipti sem þessi 41 árs gamli leikstjórnandi leiðir lið sitt í Super Bowl og fimm sinnum hefur hann lyft bikarnum. Það væri óvinnandi vegur að telja upp öll þau met sem hann hefur sett á ferlinum. Brady er hins vegar langt í frá óumdeildur, annaðhvort elskar fólk hann eða hatar af lífi og sál. Ekkert þar á milli. Fullkomin hetja eða skúrkur í leik sem þessum.

Vinsældir ameríska fótboltans hafa færst í vöxt hér á landi undanfarin ár og víða hefur myndast hefð fyrir Super Bowl-veislum þar sem kjúklingavængir, nachos og hvers kyns amerískar kræsingar eru í hávegum hafðar. Eins og rakið er hér til hliðar ættu allir að fá eitthvað við sitt hæfi, burtséð frá því hvort þeir hafi áhuga á amerískum fótbolta eða ekki. Leikurinn hefst klukkan 23.30 á sunnudagskvöld.

Stærsti sjónvarpsviðburður Bandaríkjanna
Super Bowl er langvinsælasti sjónvarpsviðburðurinn á ári hverju í Bandaríkjunum. Síðustu árin hafa á bilinu 100 til 114 milljón manns horft á leikinn í beinni útsendingu og ef horft er á vinsælustu sjónvarpsviðburði Bandaríkjanna frá upphafi voru það aðeins tunglgangan og innrásin í Írak sem hafa dregið að sér fleiri áhorfendur en þessir úrslitaleikir. Auk þess verða um 75 þúsund manns viðstaddir leikinn sjálfan á Mercedes Benz-leikvangnum í Atlanta. Það kostar Atlanta-borg 46 milljónir dollara að hýsa viðburðinn en á móti reikna borgaryfirvöld að fá til baka 400 milljóna innspýtingu í hagkerfið. Auglýsingatekjur í kringum leikinn eru áætlaðar um 380 milljónir dollara.

Ofurskálin er stærsti sjónvarpsviðburður Bandaríkjanna.

Hálfleikssýningar sem rata í sögubækurnar
Það er enginn Super Bowl-leikur án stórfenglegrar hálfleikssýningar. Það hefur þó ekki alltaf verið þannig. Lengi vel voru sýningarnar oftar en ekki bundnar ákveðnum þemum, þóttu oft hallærislegar eða beinlínis hrútleiðinlegar. Árið 1993 steig Michael Jackson á sviðið í leikhléi með einhverja eftirminnilegustu sýningu fyrr og síðar og breytti leiknum algjörlega. Síðan þá hafa listamenn á borð við Rolling Stones, U2, Aerosmith, Bruce Springstein, Beoyncé, Coldplay, Prince og Paul McCartney tryllt lýðinn. Og hver man ekki eftir því þegar Justin Timberlake beraði annað brjóst Janet Jackson og bandaríska þjóðin gekk af göflunum? Í ár varð löðurpoppsveitin Maroon 5 fyrir valinu ásamt Travis Scott og Big Boi úr Outkast, eftir að Pink og Rihanna höfðu afþakkað. Það verður svo drottning sálar-tónlistarinnar, Gladys Knight, sem syngur þjóðsönginn fyrir leik.

Hver man ekki eftir því þegar Justin Timberlake beraði annað brjóst Janet Jackson og bandaríska þjóðin gekk af göflunum?

Auglýsingarnar ekki síðri en leikurinn
Super Bowl er dýrasti auglýsingagluggi heims og kostar það um 5,2 milljónir dollara að birta 30 sekúnda auglýsingu meðan á leiknum stendur. Það gera tæplega 624 milljónir króna. Enda hafa Super Bowl-auglýsingar orðið að sérstakri listgrein á undanförnum árum. Ekkert er til sparað við gerð auglýsinganna sem oftar en ekki skarta helstu stórstjörnum samtímans hverju sinni. Fyrir flest fyrirtækin er peningunum vel varið. Ekki bara ná auglýsingarnar til ríflega 100 milljóna sjónvarpsáhorfenda heldur fá auglýsingarnar heilmikla umfjöllun bæði fyrir og eftir leik. Þær best heppnuðu fá svo mikla dreifingu á samfélagsmiðlum. Sú auglýsing sem vakið hefur mesta umtalið þetta árið er frá Stella Artois, en hún skartar Jeff Bridges í hlutverki hins ódauðlega The Dude úr kvikmyndinni Big Lebowski og Söruh Jessicu Parker sem Carrie Bradshaw úr Sex and the City.

- Auglýsing -
Sú auglýsing sem vakið hefur mesta umtalið þetta árið er frá Stella Artois, en hún skartar Jeff Bridges í hlutverki hins ódauðlega The Dude úr kvikmyndinni Big Lebowski og Söruh Jessicu Parker sem Carrie Bradshaw úr Sex and the City.

Kaupa bjór fyrir 600 milljónir dollara
Allt þetta umstang hefur að sjálfsögðu alls kyns hliðaráhrif og veltir Super Bowl-efnahagurinn milljörðum dollara. Það er hefð að gera vel við sig í mat og drykk yfir Super Bowl. Áætlað er að Bandaríkjamenn eyði um 710 milljónum dollara í áfengi þennan daginn, þar af 600 milljónum í bjór. Að meðaltali eyðir hver sjónvarpsáhorfandi 82 dollurum í mat og drykk yfir leiknum. Það er hefð að veðja á úrslit leiksins og er áætlað að Bandaríkjamenn leggi allt að 4 milljarða dollara undir í veðmál á leikinn. En það eru ekki allir sem græða því margir vinnustaðir munu láta á sjá þar sem áætlað er að 14 milljónir manna munu hringja sig inn veika á mánudaginn, daginn eftir leikinn stóra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -