Breska leikkonan og fyrirsætan Jameela Jamil er óhrædd við að segja skoðun sína á fatahönnuðinum Karl Lagerfeld.
Karl Lagerfeld lést á þriðjudaginn og síðan þá hafa tískuunnendur um allan heim minnst hans á samfélagsmiðlum. En Lagerfeld hefur verið umdeildur í gegnum tíðina enda hefur hann látið ýmis móðgandi ummæli falla. Til að mynda sagði hann söngkonuna Adele vera andlitsfríða og góða söngkonu en „of feita“ árið 2012. Sú ummæli slógu ekki í gegn.
Þá sagði hann fólk af sinni kynslóð vera „hræðilegt“ árið 2014. Sama ár viðurkenndi hann að honum þætti fyrirsætan Cara Delevingne ekkert sérlega falleg. Sömuleiðis tjáði hann sig um að Pippa Middleton væri ekki andlitsfríð að hans mati.
Einnig hafði hann sterkar skoðanir á húðflúrum og fegrunaraðgerðum og var óhræddur við að viðra þær skoðanir á óvæginn hátt.
Fitufordómar og kvenfyrirlitning
Lagerfeld hefur þá reglulega verið sakaður um fitufordóma og kvenfyrirlitningu á ferli sínum, til að mynda þegar hann sagði að þybbnar konur ættu ekki heima á tískupöllunum. Og að hans mati var Heidi Klum of íturvaxin og brjóstastór. Eins sagðist hann vera orðinn þreyttur á #metoo byltingunni árið 2018. Svona mæti lengi telja.
Breska leikkonan og fyrirsætan Jameela Jamil undrar sig á að nú virðist allt þetta vera gleymt, þegar Lagerfeld er látinn.
„Ég er glöð að einhver sagði það. Jafnvel þó að það sé svolítið snemmt,“ skrifaði Jamil á Twitter og deildi grein af vefnum Wear Your Voice Mag þar sem vakin er athygli á öllum þeim móðgandi og umdeildu ummælum sem Lagerfeld lét út úr sér í gegnum árin.
Jamil lýsti Lagerfeld svo sem vægðarlausum manni sem var uppfullur af fitufordómum og kvenhatri í sömu færslu. Jamil viðurkennir þó að Lagerfeld hafi vissilega verið hæfileikaríkur á sínu sviði. „Svo sannarlega hæfileikaríkur, en ekki besta manneskjan.“
I’m glad somebody said it. Even if it is a little soon. A ruthless, fat-phobic misogynist shouldn’t be posted all over the internet as a saint gone-too-soon. Talented for sure, but not the best person. https://t.co/RK3Q9HilpP
— Jameela Jamil (@jameelajamil) February 19, 2019
Sjá einnig: Karl Lagerfeld er látinn
Sjá einnig: Stjörnurnar minnast Karls Lagerfeld