Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Svolítið eins og Uber fyrir dagsverkin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Forritarinn Steinar Bragi Sigurðarson er meðstofnandi apps sem nú er í vinnslu og heitir NearOnes og er snjallsímaforrit fyrir fólk sem vantar aðstoð við dagleg verk eins og til dæmis eldamennsku, barnapössun, þrif og garðyrkju. Steinar býr og starfar í Hollandi og við slógum á þráðinn til hans.

Steinar Bragi Sigurðarson hefur að undanförnu meðal annars verið að rannsaka gervitauganet (e. Neural Networks) og tölvusýn (e. Computer Vision).

„Hugmyndin að NearOnes kviknaði hjá meðstofnendum mínum Yvonne Greeuw og Toni Lufi fyrir nokkrum mánuðum síðan,“ segir Steinar sem síðastliðin tvö ár hefur stundað meistaranám í tölvunarfræði við háskólann í Leiden með áherslu á gagnavísindi og gervigreind. „Þau vildu mynda sterkari samfélagstengsl í nærumhverfi fólks og hugmyndin er að þróa snjallsímaforrit fyrir fólk sem vantar aðstoð við dagleg verk, til dæmis eldamennsku, barnapössun, þrif og garðyrkju. Það eru til ýmis kerfi sem tengja fólk saman í ákveðnum tilgangi, til dæmis LinkedIn fyrir atvinnu, AirBnb fyrir gistingar, Uber fyrir skutl og Deliveroo fyrir heimsendingar á mat. Það vantar eitthvað fyrir þessi daglegu smáverk. Við sjáum til dæmis fyrir okkur að eldri borgarar gætu viljað aðstoð við matarinnkaup og eldamennsku einhverja daga í viku. Við sjáum einnig fyrir okkur að mennta- og háskólanemar væru til í að bjóða fram aðstoð sína við þessi verk gegn smávægilegri greiðslu. Menntaskólanemar vinna gjarnan afgreiðslu- og þjónustustörf á lágum launum með fram námi en við höldum að þetta gæti verið líflegur og skemmtilegur valkostur til að afla sér smávegis aukatekna. Svolítið eins og Uber fyrir dagsverkin. Ég er rétt að byrja að forrita en Toni og Yvonne hafa undanfarna mánuði verið í ítarlegum markaðsrannsóknum og prufum með ýmsum hópum víðsvegar um Amsterdam. Það virðist vera sterkur grundvöllur fyrir þessu og ég hef mikla trú á hugmyndinni. Það sem heillar mig mest er að þetta tengir fólk saman á svo mannlegan og skemmtilegan hátt og getur skapað ný, sterk og raunveruleg vinabönd. Við viljum virkja nágrenni fólks og skapa sterkari tengingar.“

„Hugmyndin er að þróa snjallsímaforrit fyrir fólk sem vantar aðstoð við dagleg verk, til dæmis eldamennsku, barnapössun, þrif og garðyrkju.“

Fundu hann á LinkedIn
Steinar Bragi hefur unnið við vefforritun frá því hann hóf nám í tölvunarfræði árið 2010 í HR. „Með náminu vann ég hjá litlu Internet-þjónustufyrirtæki sem heitir Hringiðan. Ég var upphaflega ráðinn sem þjónustufulltrúi og vann þar meðal annars með vefhýsingar. Þaðan fór ég að fikta mig áfram með vefforritun, fyrst með WordPress sem síðar þróaðist út í stærri og flóknari verkefni. Ég fór frá Hringiðunni árið 2013 til sprotafyrirtækisins Spyr á frumkvöðlasetrinu á Eiðistorgi. Þar vann ég sem vefforritari í tæpt ár, þangað til ég útskrifaðist úr náminu og hóf störf hjá Vivaldi, hugbúnaðarfyrirtæki sem smíðar vefvafra. Starfið var virkilega spennandi og ég fékk þar tækifæri á að upplifa öran vöxt á þeim þremur árum sem ég var þar. Hjá Vivaldi var ég umkringdur fólki sem hafði áratugareynslu af vefnum og veftækni. Fyrirtækið var nefnilega stofnað af Jóni Stephenson von Tetzcher sem stofnaði Opera Software snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Árið 2017 vann ég svo hjá Vettvangi í nokkra mánuði áður en ég fór í námið til Hollands,“ segir Steinar.

Hann hafði hugsað sér að fara aftur til Íslands að námi loknu en fór svo að sjá að hann langaði að vera lengur í Hollandi. „Ég hafði myndað ákveðin vinabönd og tengsl við Holland sem ég vil rækta áfram. Ég hóf atvinnuleit hér fyrir nokkrum vikum síðan, fór í mörg atvinnuviðtöl og sá mörg spennandi tækifæri en það var ekkert sem fangaði athygli mína jafnsterklega og NearOnes.

Yvonne Greeuw og Toni Lufi fundu Steinar Braga á LinkedIn og fengu hann til að verða tæknilegan meðstofnanda NearOnes.

Toni og Yvonne fundu mig á LinkedIn og komu til mín til Den Haag og sannfærðu mig um að taka þátt í þessu verkefni, og vildu fá mig inn sem tæknilegan meðstofnanda. Þeim fannst bakgrunnur minn passa vel þarna inn, til þess að smíða og byggja fyrstu útgáfu af appinu frá grunni. Ég þurfti því að velja á milli þess að fá stabílt, venjulegt starf sem framendaforritari eða tækifæri til þess að gera það sem mig hefur langað að gera lengi, að smíða eitthvað nýtt frá grunni með kláru fólki. Seinni kosturinn var meira spennandi en óvissan og áhættan meiri. Ég ákvað að fylgja hjartanu og taka þátt í þessu ævintýri með þeim. Ég ánægður með það og hef fulla trú á að ég hafi valið rétt.“

Þau eru með aðstöðu hjá Holland Startup, frumkvöðlasetri í Utrecht sem er rekið af reynsluboltum í nýsköpun og frumköðlastarfsemi. „Það er ómetanlegt að fá stuðning þeirra, handleiðslu og ráðgjöf og að auki aðstoð með fjármagn til þess að koma okkur af stað.“

Hvíldi forritun og varð sendibílstjóri
Steinar Bragi flutti til Egilsstaða með foreldrum sínum og bróður árið 2000 og segir það hafa verið svolítið menningarsjokk fyrst enda alinn upp í Suður-Frakklandi fyrstu árin. „Það tók mig svolítinn tíma að aðlagast íslenskri menningu, kuldanum og aðeins öðruvísi lifnaðarháttum. Menntaskólaárin voru mjög fjörug, aðeins of fjörug á köflum, og ég eignaðist fjölbreyttan vinahóp. Ég held enn þá sambandi við marga þeirra í dag. Ég bjó á Egilsstöðum þangað til 2010 þegar ég útskrifaðist úr ME og flutti til Reykjavíkur í nám. Ég átti virkilega góð ár á Egilsstöðum og sakna staðarins stundum. Síðasta sumar langaði mig að vera þar yfir sumarið, svo ég ákvað að taka mér pásu frá tölvunni og vinna sem sendibílstjóri þar. Ég var aðallega í því að skutla matvöru á hótel og veitingastaði. Það var gott að komast aftur „heim“ í smátíma.“

- Auglýsing -

Steinar mun flytja til Amsterdam frá Den Haag á næstu vikum. „Það eru mikil kaflaskil í mínu lífi þessa dagana, nýtt starf, ný borg og ný tækifæri. Ég er gríðarlega spenntur yfir framhaldinu, þótt það ríki enn svolítil óvissa. Fyrirtækið okkar er enn á frumstigi en það er mjög bjart fram undan,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -