Fjórar tilkynningar um kynferðislega áreitni innan RÚV en þetta kemur fram í skráningum fyrirtækisins á síðustu fjórum árum.
„Brugðist hefur verið við þeim í samræmi við viðbragðsáætlun og leyst úr málum á grunni hennar,’’ segir í svari útvarpsstjóra til Kjarnans sem spurði út í málið.
Þá segir útvarpsstjóri að viðbragðsáætlun við slíkum málum sé endurskoðuð reglulega en síðast hafi það verið gert í ágúst á þessu ári.
Í viðbragðsáætluninni er kynferðisleg áreitni skilgreind :
„Hvers kyns hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg’’.
Rúv tekur jafnframt fram að í árlegri vinnustaðagreiningu sé spurt um þessi mál og að fræðsla sé boðin.
Þá er tekið fram í viðbragðsáætlun að fyllsta trúnaðar sé gætt við meðferð málanna og sé vinnsla þeirra í samráði við aðila sem tilkynnti málið.
Þá er einnig boðið upp á tíma hjá sálfræðingi hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni fyrir þá sem vilja leita þangað.
Í viðbragðsáætlun segir þá meðal annars:
„Hver sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni á vinnustað, eða hafa rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun, skuli upplýsa næsta yfirmann, annan stjórnanda, mannauðsstjóra eða annan sem viðkomandi treystir. Gagnlegt sé að skrá þau atvik sem tilkynningin byggist á og einnig hverjir séu mögulega til vitnis.’’
Hægt er að lesa sig til um viðbragðsáætlun RÚV hér.