Flugfélagið Icelandair birti í gær flugáætlun sína til og frá Íslandi næstu þrjár vikur. Verulega hefur dregið úr flugsamgöngum víða um heim síðustu vikur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar þar sem mörg ríki hafa ýmist lokað fyrir eða heft ferðalög yfir landamæri sín. Augljóst er að flugfélagið íslenska hefur þurft að draga verulega saman í sinni áætlun en það flýgur farþegum aðeins til og frá þremur áfangastöðum á næstunni, það er frá Lundúnum, Boston og Stokkhólmi.
Til Bretlands verða flognar átta ferðir dagana 14., 19., 22., 24., 26., 29. apríl og 1. og 3. maí. Til Bandaríkjanna verða sjö ferðir dagana 15., 16., 18., 23., 25., 30. apríl og 2. maí. og þá verða þrjár ferðir farnar til Svíþjóðar dagana 18. og 25. apríl og 2. maí.