Það er oft sagt að það sé ódýrt að kynda húsnæði á Íslandi og það er vissulega mikið til í því enda nýta um 90% heimila hitaveitu til húshitunar en ekki rafmagn eða olíu. Hvernig sem því er háttað þá er alltaf gott að ná að lækka útgjöld heimilisins og óþarfi að spreða orku til húshitunar.
Ýmis ráð eru til og eitt sem gott er að hafa í huga er að á mörgum heimilum eru ofnar hreinlega stilltir á óþarflega háan hita. Innihiti er oft 23-25°C, samkvæmt því sem fram kemur á vef Orkuseturs, en rannsóknir hafa sýnt fram á að 20°C innihiti sé kjörhitastig með tilliti til loftgæða og almennrar vellíðunar.
Lækkaðu hitann og kostnaðinn
Hitakostnaður hækkar um 7% við það að hækka hitann um 1°C en þetta kemur fram á vef Orkuseturs þar sem einnig má finna hitaveitureiknivél sem er mjög sniðugt að skoða. Þannig að einfaldasta leiðin til að lækka hitakostnaðinn er að lækka hitann. Það þarf til dæmis ekki að vera sama hitastig í stofunni og í svefnherberginu. Svo ekki sé minnst á geymsluna eða önnur rými sem ekki er gengið mikið um.
Annað sem hægt er að gera er að fjárfesta í hitastýringu sem lækkar hitann á meðan enginn er heima eða á meðan fólk sefur.
Opnu gluggarnir og allt á fullu
Margir opna gluggann þegar það er heitt inni en lækka ekki í ofninum sem er beint undir honum. Þá fer ofninn á fullt og hitinn tapast. Veitur gefa ýmis góð ráð til að draga úr hitunarkostnaði og eitt þeirra er að skrúfa niður í ofni á meðan loftað er út. Ef ekki þá er alla vega hægt að lofta út í 10-15 mínútur en hafa glugga lokaða þess á milli. Annars má segja að verið sé að henda peningunum út um gluggann!
Annað ráð er að gæta að því hvort húsgögn eða gluggatjöld séu fyrir ofninum. Ef svo er þá getur það hindrað hitaflæðið og þannig er heita vatninu illa varið. Ef gluggatjöld eru ofan við ofna er best að þau nái ekki neðar en að gluggakistu. Síðan er bráðsniðugt að draga frá að degi til og nýta sólina til að hita upp húsnæðið.