Sumarblíðan verður á Egilsstöðum í dag en búist er við sextán stiga hita og heiðskíru veðri. Á höfuðborgarvæðinu verður heldur þungbúið framan af degi en styttir upp seinnipartinn. Á morgun, 17. júní, er búist við hinu klassíska „17. júní-veðri.“ Ef marka má spá Veðurstofu Íslands er regngalli ef til vill vænlegasti kosturinn.
„Á föstudag (lýðveldisdagurinn):
Norðaustan 5-10 m/s og rigning, einkum norðan- og austanlands. Vaxandi norðanátt síðdegis og dregur úr vætu sunnan heiða. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast sunnantil.“
Búist er við svipuðu veðri á laugardag.
„Norðvestan og norðan 10-18, en hvassara í vindstrengjum á Suðaustur- og Austurlandi. Rigning um landið norðaustanvert með hita 5 til 9 stig, en bjart með köflum annars staðar og hiti 8 til 15 stig. Dregur úr vindi eftir hádegi og styttir smám saman upp.“