Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Svona verður heimurinn 2019

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rétt eins og árið sem nú er á enda mun árið 2019 einkennast af spennu og óvissu á alþjóðavettvangi. Átökin í Miðausturlöndum virðast engan endi ætla að taka og óútreiknanleg utanríkisstefna Donalds Trump getur gert ótryggt ástand enn eldfimara. Evrópusambandið mun taka miklum breytingum, bæði að innan og utan þar sem Brexit verður að veruleika. Mannlíf fer yfir það helsta sem mun gerast á árinu 2019.

Stefnir í sársaukafullt Brexit

Bretland mun að öllu óbreyttu ganga úr Evrópusambandinu þann 29. mars. Það á hins vegar enn eftir að koma í ljós á hvaða forsendum það verður. Breska þingið mun kjósa um óvinsælan samning Theresu May í byrjun ársins og verði hann samþykktur hefst aðlögunarferli við útgöngu.

Ríkisstjórn May er hins vegar þegar farin að undirbúa sig fyrir útgöngu án samnings og sviðsmyndin sem við blasir er allt annað en falleg. Bresk stjórnmál voru farsakennd í ár og ekkert bendir til annars en að það sama verði uppi á teningnum árið 2019. Pólitískt líf Theresu May og ríkisstjórnar hefur hangið á bláþræði í marga mánuði og mun gera það áfram.

Miklar breytingar innan ESB

Miklar breytingar verða á ásjónu Evrópusambandsins. Kosningar til Evrópuþings verða í maí þar sem kosið verður um 705 sæti í stað 751 sætis áður vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu. Líkt og í fyrri kosningum verður kosningaþátttaka lág og popúlistar og jaðarflokkar stela athylginni. Ný andlit munu skipa forystu ráðherraráðsins, þingsins og framkvæmdastjórnarinnar. Evran fagnar sömuleiðis 20 ára afmæli sínu árinu sem jafnframt verður síðasta ár Marios Draghi í embætti seðlabankastjóra.

Nýr seðlabankastjóri tekur við evrunni í mun betra standi en Draghi sem þurfti að leiða gjaldmiðilinn í gegnum krísur í Grikklandi, Portúgal og á Spáni. Þó er viðbúið að efnahagsstefnan harðni er líða tekur á árið. Innspýtingaraðgerðir seðlabankans renna sitt skeið á enda næsta haust og viðbúið er að eitt síðasta verk Draghis verði að hækka stýrivexti. Augu áhyggjufullra fjárfesta beinast nú að Ítalíu þar sem popúlistar eru við völd. Ný fjárlög þar í landi munu auka enn á skuldsetningu í trássi við reglur evrusvæðisins og var hún næg fyrir. Á pólitíska sviðinu munu ólýðræðislegu popúlistarnir í Ungverjalandi og Póllandi halda áfram að reyna á þolinmæði kollega sinna með umdeildum og allt að því fasískum tilburðum.

- Auglýsing -

Trump forherðist

Donald Trump mun glíma við nýjan veruleika þegar demókratar taka völdin í fulltrúadeild þingsins. Þeir munu vafalaust gera forsetanum lífið leitt og efna til hinna ýmsu rannsókna gegn Trump, til að mynda freista þess að fá umdeilda skattaskýrslu hans fram í sviðsljósið. Á sama tíma fer leitin að forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins á fullt. Fleiri ákærur munu birtast í tengslum við rannsókn Roberts Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 en Trump mun sitja sem fastast og forherðast enn frekar eftir því sem sótt verður harðar að honum.

Bandaríska hagkerfið hægir á sér eftir óvenju langt hagsældarskeið sem mun ergja Trump enn frekar. Gjáin milli íhaldsmanna og frjálslyndra breikkar með tilheyrandi sjónarspili og lágkúru. Það verður þó ekkert í líkingu við 2020. Norðan landamæranna þarf algjör andstaða Trump, Justin Trudeau, að sækjast eftir endurkjöri. Vinsældir hans hafa dalað nokkuð og sækir Íhaldsflokkurinn hart að honum.

- Auglýsing -

Hvað gerir veikur Pútín?

Vladimir Pútín er í vandræðum heimafyrir. Hagkerfið hefur glímt við áralanga stöðnun og ekki er útlit fyrir að viðskiptaþvingunum, sem þrátt fyrir fjálglegar fullyrðingar um annað hafa skaðað Rússland, verði aflétt í bráð. Vinsældir Pútíns, sem fóru í hæstu hæðir eftir innlimun Krímskaga, fara dvínandi. Almenningur er orðinn þreyttur á kostnaðarsömum stríðsrekstri í Sýrlandi og hækkun á ellilífeyrisaldri varð uppspretta mótmæla.

Þetta er hættuleg blanda. Pútín gæti reynt að afla sér aukinna vinsælda með stríðsátökum þar sem Úkraína er augljósasta skotmarkið. Heimafyrir herðir hann tökin á fjölmiðlum og samfélagsmiðlum enn frekar og má nú þegar sjá þess merki, samanber aðför hans gegn rapptónlist.

Hræringar á Norðurlöndum

Bæði Danir og Finnar ganga til kosninga á árinu. Í Danmörku er það bláa blokkin, sem samanstendur af hægri flokkunum, sem stjórnar með minnsta mögulega meirihluta og fátt bendir til annars en að kosningarnar í ár verði hnífjafnar. Sem stendur er rauða blokkin með nauman meirihluta í könnunum.

Í Finnlandi mælast Sósíaldemókratar stærstir og útlit er fyrir stjórnarskipti. Munar þar mestu um að hinn þjóðernissinnaði popúlistaflokkur Sannir Finnar klofnaði á kjörtímabilinu. Þá gæti farið svo að kjósi þurfi á ný í Svíþjóð þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 9. september.

Flokkurinn herðir tökin

Hugmyndafræði forsetans Xi Jinping hefur nú verið greypt í stjórnarskrá Kína um leið og tryggt var að hann getur setið í embætti til æviloka. Þrátt fyrir það er Kommúnistaflokkurinn enn óöruggur um stöðu sína sem mun endurspeglast í enn ágengari ritskoðunartilburðum og áframhaldandi ofsóknum gegn minnihlutahópum, ekki síst gegn Úígúrum.

Á næsta ári verða 30 ár liðin frá hinni blóðugu stúdentauppreisn á Torgi hins himneska friðar og má búast við grimmri ritskoðun af hálfu kínverskra yfirvalda í kringum þann viðburð. Efnahagurinn verður fyrir hnjaski, meðal annars vegna harðandi viðskiptastríðs gegn Donald Trump.

Stríðandi stórveldi glíma við innanmein

Vonir standa til að hægt verði að hefja uppbyggingu í Sýrlandi eftir áralangar hörmungar þótt Bashar al-Assad reyni að leggja stein í götu uppbyggingarinnar. Lítið lát er á hörmungunum í Jemen þótt stórveldin sem þar tefla – Íran og Sádí Arabía – glími við mikil innanmein.

Ákvörðun Trumps um að draga herlið Bandaríkjahers frá Sýrlandi gæti hins vegar raskað öllu valdajafnvægi á svæðinu og leitt til enn frekari hörmunga. Klerkastjórnin í Íran stendur á veikari fótum en áður, meðal annars fyrir tilstilli viðskiptaþvingana Bandaríkjastjórnar. Önnur bylting kann að vera í aðsigi. Í krafti olíuauðsins hefur Sádí Arabía komist upp með alls kyns óhæfuverk en krónprinsinn Mohammed bin Salman gekk of langt þegar hann lét myrða blaðamanninn Jamal Kashoggi. Hann á eftir að finna fyrir aukinni einangrun, bæði heimafyrir og frá Vesturlöndum.

Í Ísrael freistar Benjamin Netanyahu að verða sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið á stóli, það er takist honum að sitja fram í júlí. Það er alls óvíst því spillingarmálin gegn Netanyahu og eiginkonu hans hrannast upp og valdaskipti á næsta ári eru því ekki útilokuð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -