Þegar Spænska veikin felldi nærri 500 Íslendinga var stór hluti landsins settur í eingangrun. Samgöngubann var sett á þannig að Norður-, Suður- og Austurland voru einangruð frá suðvesturhorni landsins og Vesturlandinu. Þannig tókst að forða 40 prósentum þjóðarinnar frá veirunni skæðu.
Árið 1918 var Ísland bændasamfélag þar sem nærri 60 prósent af ríflega 90 þúsund íbúum bjuggu í dreifbýli og hin 40 prósentin í þéttbýliskjörnum. Fyrsta bylgja inflúensunnar barst til landsins í júlí 1918, en einkenni veikinnar voru þá yfirleitt væg. Önnur bylgja veikinnar barst til svo landsins dagana 19. og 20. október með skipverjum á Botníu og Willemoes. Þannig barst veikin frá Reykjavík og Hafnarfirði til Suðurnesja, yfir á Vesturland og áfram norður á Vestfirði.
Fréttir af háu dánarhlutfalli í Reykjavík bárust fljótt til nærliggjandi byggðarlaga en það kom ekki í veg fyrir að veikin skal með fullum þunga bæði á Akranesi og Keflavík. Íbúar fjarlægari staða höfðu hins vegar lengri tíma til að bregðast við yfirvofandi vá. Fyrir tilstuðlan heimamanna var komið á samgöngubanni yfir Holtavörðuheiði til norðurs og ferðalög austur yfir Jökulsá á Sólheimasandi voru bönnuð. Skip sem sigldu til Norður- og Austurlands voru sett í sóttkví vikum saman eftir hildarleikinn í Reykjavík. Eftirlit var haft með að samgöngubanninu væri hlýtt og tókst þannig að stemma stigu við útbreiðslu veikinnar til Norður- og Austurlands.
Það vekur athygli að heimamenn, bæði norðanlands og austan, áttu frumkvæði að einangrun sinna landshluta. Þetta samgöngubann varð án efa til þess að veikin barst hvorki til Norður- né Austurlands ásamt hluta Vesturlands.
„Blóðið streymdi ekki aðeins úr nösum, stundum óstöðvandi, heldur og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrásina.“
Ljóst þykir á lýsingum að Spænska veikin var mjög skæð. Þannig ritaði Þórður Thorodssen læknir eftirfarandi lýsingu í Læknablaðinu árið 1919. „Að því er sjálfa veikina snertir, var hún mjög einkennileg og að mörgu leyti alt öðruvísi en þær inflúensu-sóttir, sem áður hafa gengið og eg hefi séð. Eg var alvanur við að sjá í fyrri sóttum barkakvef og hálsbólgur, lungnakvef og lungnabólgur, bæði bronco-pneumoníur og krúpösar, eyrnabólgur, taugaverki, uppköst og niðurgang, konur hafa misst fangs og sumir orðið hálf brjálaðir um tíma. En svo þungt lungnakvef, svo tíðar lungnabólgur sem í þessari sótt hefi eg aldrei séð. Og þessar blæðingar. Blóðið streymdi ekki aðeins úr nösum, stundum óstöðvandi, heldur og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrásina. Lungnabólgan kom þótt menn lægju kyrrir í rúmunum og gættu allrar varúðar. Og þótt lungnabólgan rénaði, fór hjartað að ólmast, hræðsla greip menn og kvíði, þyngsli komu og andarteppa, menn bólgnuðu í andliti, á höndum og fótum og köfnuðu að lokum. Og svo eftir alt saman urðu líkin helblá. Þetta er það, sem gerði þessa inflúensa-sótt svo einkennilega og ægilegri en aðrar inflúensa-sóttir, sem eg hefi séð,“ sagði Þórður.
Á Íslandi er talið að tæplega 500 manns hafi látist í annarri bylgju veikinnar og mestur var fjöldinn í Reykjavík, tæplega 300 manns. Dánarhlutfallið var nálægt 2,8 prósentum hér á landi. Þegar aldur fórnarlamba spænsku veikinnar er skoðaður kemur í ljós að ungt og hraust fólk á aldrinum 20-40 ára varð verst úti, ásamt smábörnum og eldri borgurum.
Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir fór yfir veikina og viðbrögð yfirvalda við henni í Læknablaðinu fyrir rúmum áratug síðan. Þar segir hann að ýmsan lærdóm megi draga af útbreiðslu veikinnar hér á landi. Einna merkast megi telja að hér tókst að einangra stóran hluta landsins en það er líklega einsdæmi þegar heil þjóð á í hlut. Í öðru lagi hafa lítil og sein viðbrögð heilbrigðisyfirvalda orðið mönnum umhugsunarefni. „Það er auðvelt að vera vitur eftir á,“ sagði Magnús í lokaorðum sínum.