Föstudagur 25. október, 2024
3.2 C
Reykjavik

„Sýni hver vændiskonan raunverulega er“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Sigríður Sæmundsen, viðskiptafræðingur og rithöfundur, sendir frá sér skáldsöguna Andstæður nú fyrir jólin. Bókin fjallar um vændi og Guðrún fór í heilmikla rannsóknarvinnu við skrif hennar. Útkoman er raunsönn mynd af reynslu kvenna í þessum heimi.

„Ég fékk hugmyndina að sögunni árið 2015 eftir að hafa rekið augun í blaðagrein um að Amnesty International, ein stærstu mannréttindasamtök í heiminum, mæltu fyrir afglæpavæðingu vændis. Þá gerðist eitthvað. Mér fannst ég þurfa að kafa ofan í efnið og í raun að skrifa gegn afglæpavæðingunni,“ segir Guðrún þegar hún er spurð um tilurð bókarinnar. „Hugmynd að sögu í þessum dúr kemur ekkert „af því bara“. Ég hef alltaf haft áhuga á umræðunni um hvort vændi eigi að vera löglegt og hvort það sé betra fyrir vændiskonur og samfélagið í heild að hafa vændi meira sýnilegt og uppi á yfirborðinu. Ég var mjög hissa þegar ég sá tillöguna frá Amnesty því sjálfri hefur mér alltaf fundist vændi vera ofbeldi.
Bókin er í raun byggð á tillögu Amnesty. Ég skoðaði raunumhverfið, bjó síðan til persónur og gerði úr því fróðlega og spennandi sögu. Fyrir bókina skoðaði ég sérstaklega Holland því sagan gerist einnig að hluta til þar. Þegar ég svo fór að kafa dýpra komst ég að því að margt hefur farið úrskeiðis með lögleiðingu vændis þar í landi. Eftir að banni af vændishúsum var aflétt árið 2000 í Hollandi og lögunum breytt þannig að vændiskonum var gert að greiða skatta og önnur gjöld, hafa aðstæður þessara kvenna hríðversnað. Þrátt fyrir að starfsemin eigi að vera meira uppi á yfirborðinu hefur mansal aldrei verið jafnmikið og hollenska ríkið hefur verið að missa tökin á utanumhaldinu. Ofbeldi hefur ekkert minnkað og aðstæður þessara kvenna ekkert batnað. Kynlífstúrismi hefur bara aukist, mörgum til mikils ama, svo mikið að borgarstjórinn í Amsterdam lét til að mynda minnka umfang svokallaðs „gluggavændis“ í rauða hverfinu.
Þessar staðreyndir, ásamt meira efni, koma fram í bókinni. En svo má ekki gleyma að þetta er fyrst og fremst skáldsaga, spennandi og fróðleg saga, sem hristir verulega upp í lesandanum.“

„Vændi er ofbeldi“
Guðrún segist hafa valið þessi efnistök af áhuga. Hún velti fyrir sér spurningum eins og hvaða konur stunda vændi? „Þurfa þær að gera það og vilja þær það? Er ofbeldi gegn þeim að mestu útrýmt með því að hafa starfsemina sýnilega? Er vændiskonan að gera sér þetta til gamans? Vildi hún alltaf verða vændiskona? Eða dreymdi hana um að gera eitthvað allt annað? Ef hún vildi gera eitthvað annað, hvað gerðist þá á lífsleiðinni sem gerði það að verkum að hún fór þessa leið?
Boðskapur bókarinnar er að vændi er fáránlegt. Það er hreint og beint ofbeldi gegn konum. Í bókinni sýni ég hvað knýr vændiskaupandann áfram í að nota þjónustu vændiskonu og það sem er enn mikilvægara, ég sýni hver vændiskonan raunverulega er, svo lesandinn fái jákvæða mynd af henni sem persónu, skilji tilfinningar hennar og þrár. Svo er þetta líka ástarsaga. Ástin er dularfull og dúkkar upp á ólíklegustu tímum og stöðum, kannski meðal þeirra sem hefðu síst grunað það. Það eru nefnilega líka ljósir punktar í sögunni,“ segir Guðrún.
Við vinnslu bókarinnar talaði Guðrún meðal annars við ráðgjafa hjá Stígamótum og fékk sendar greinar frá þeim. Eins skoðaði hún rannsóknir og skýrslur, til dæmis frá Evrópuþinginu. „Mikilvægasta heimildamanneskjan mín var Mirjam van Twuijver en hún starfaði áður sem vændiskona í rauða hverfinu í Amsterdam. Ég hitti Mirjam fyrst haustið árið 2016 en þá fékk ég leyfi til að heimsækja hana í fangelsið á Akureyri. Milli okkar myndaðist strax mikið traust og hún var mjög opinská um líf sitt og æsku. Mirjam gaf mér haldgóðar upplýsingar sem hjálpuðu mér að móta eina aðalsögupersónuna í bókinni, hana Jasmijn,“ segir Guðrún.
„Það í raun skiptir ekki máli hvað ég las eða við hvern ég talaði fyrir bókina, það var þessi rauði þráður gegnumgangandi; að meirihluti þeirra sem stunda vændi eru konur, oft í tengslum við fíkniefnaneyslu en svo hefur meira en helmingur þeirra sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar áfalli í æsku eða á unglingsárunum. Vændi er síðasta val þeirra sem það stunda og er það gert af algerri neyð, fyrir utan þær sem eru þvingaðar til þess. Svo getur verið erfitt fyrir þær konur sem hafa stundað vændi að komast út úr því.“
Hún segir að draumurinn sé að skrifa, hún sé núna að lifa drauminn og sé hvergi nærri hætt. „Eftir áramót ætla ég að byrja á næstu bók og það er aldrei að vita nema það verði framhald af Andstæður. Viðbrögð lesenda hafa verið það góð að það verður erfitt að segja skilið við söguna og sögupersónurnar. Ég get alla vega sagt að það er af nógu að taka og flæði hugmynda endalaust, svo fylgist með.“

„Boðskapur bókarinnar er að vændi er fáránlegt. Það er hreint og beint ofbeldi gegn konum. Í bókinni sýni ég hvað knýr vændiskaupandann áfram í að nota þjónustu vændiskonu.“ Mynd/ Íris Sigurðardóttir

Skoðar dökkar hliðar samfélagsins
Guðrún hefur í gegnum tíðina starfað tengt menntun sinni, viðskiptafræði, en gaf svo út fyrstu skáldsöguna sína, Hann kallar á mig, jólin 2015. Andstæður er önnur bók hennar. „Í fyrstu tveimur bókunum mínum hef ég skrifað um dökkar hliðar samfélagsins. Til að mynda fjallaði fyrsta bókin mín um fíkn. Í þeirri bók kafa ég ofan í bakgrunn fíkilsins, skoða hvernig fíknin þróast og sýni fram á að fíkillinn hefur alltaf val um aðra leið í lífinu. Í nýju bókinni, Andstæður, skoða ég vændi. Lesandinn fær annars vegar sjónarhorn vændiskaupandans og hins vegar vændiskonunnar. Í gegnum söguna set ég fram ljóðrænar pælingar um þessar andstæður sem togast á innra með fólki í mismunandi aðstæðum; græðgi og nægjusemi, illska og kærleikur, ótti og hugrekki.“
Hún segir að þó að viðskiptafræði sé menntunin hennar hafi það ekki allt að segja um hana sem persónu. „Til dæmis hvað ég hugsa frá degi til dags eða hver sé ástríðan í mínu lífi. Sjálfri finnst mér gaman að læra og fræðast. Ég elska að lesa og eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að skrifa. Það hefur fylgt mér frá blautu barnsbeini. Við systkinin erum alin upp við bækur, það var alltaf lesið fyrir okkur á kvöldin og bækur voru alltaf sýnilegar á heimilinu. Ef ég var í tiltekt og þurfti að velja hvort setja átti bækur ofan í kassa í geymslu eða skrautmuni, þá fór það síðarnefnda. Bækurnar mínar fengu alltaf sitt pláss,“ segir hún.

Fylgist með fólki úr fjarlægð
Góð skáldsaga þarf, að mati Guðrúnar, að grípa lesandann strax í upphafi, hreyfa við tilfinningum hans og fræða hann í leiðinni. „Það þarf að gefa allt í skrifin, sem getur verið mjög erfitt, sérstaklega ef efnistökin eru þung. Ég get til dæmis verið eftir mig eftir að hafa skrifað um ofbeldi, sorg, svik, reiði eða annað þvíumlíkt. Til að vera rithöfundur þarf einnig að hafa áhuga á umhverfinu og öðru fólki. Þegar ég sit og tala við einhvern eða horfi á fólk úr fjarlægð þá fylgist ég með svipbrigðum og hreyfingum. Ég hugleiði hvað er að gerast í kringum mig, til dæmis hvernig manneskjunni við hliðina á mér á biðstofunni líður eða hvað maðurinn fyrir framan mig í röðinni í Bónus sé að hugsa. Þegar fólk hagar sér á ákveðinn hátt, jafnvel í óþökk annarra eða bregst einkennilega við aðstæðum eða athugasemdum, velti ég því alveg fyrir mér hvað orsaki hegðun þess. Stundum er ég komin aftur í barnæsku viðkomandi og ímynda mér fjölskyldumynstur og annað til að virkilega átta mig á hvað er í gangi. Þá er ég bara að búa til sögu í huganum, þar sem ég sit eða stend.“

Skrifaði samhliða sendiráðsstarfi
Guðrún á sextán mánaða dóttur og það er annað barn á leiðinni. Árið 2006 útskrifaðist hún sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og fór síðan í master í alþjóðaviðskiptum í Grenoble Graduate School of Business í Frakklandi. Á meðan hún var að ljúka við mastersritgerðina, snemma árs 2009, fór hún til Brussel í starfsnám hjá EFTA en einmitt þar gerist bókin Andstæður að hluta til. „Fyrir mér er mikilvægt að hafa klárað námið, verið búsett erlendis, hitt allt þetta fólk og öðlast reynslu úr ýmsum áttum, því allt hjálpar það til við skrifin. Þannig mótast persónur og umhverfi út frá alls konar upplifun hjá mér sjálfri. Svo spilar ímyndunaraflið stórt hlutverk og þannig hefur mér tekist að skrifa og gefa út tvær bækur.
Núna síðast starfaði ég sem menningar- og vísindafulltrúi hjá franska sendiráðinu í Reykjavík. Helstu verkefni mín hjá sendiráðinu voru meðal annars að vera í samskiptum við bæði franska og íslenska listamenn, skipuleggja menningartengda viðburði, eins og frönsku kvikmyndahátíðina og taka þátt í ákvörðunarferli við úthlutun menningar- og vísindatengdra styrkja. Samhliða starfinu í sendiráðinu skrifaði ég nýju bókina mína en sagan var þrjú ár í smíðum.“

Guðrún Sigríður Sæmundsen fjallar um vændi í bókinni Andstæður.

Gæti hugsað sér að skrifa barnabók
Annasamur tími er fram undan við að fylgja bókinni eftir sem Guðrúnu þykir mjög gaman. „Ég er með upplestra, hef verið að gefa viðtöl og svo framvegis. Ég er í góðu samstarfi við útgefandann og fæ frelsi til að skipuleggja markaðssetninguna sjálf. Til að mynda er ég með Facebook-síðu fyrir mig sem rithöfund og þar kemur inn allt efni tengt bókunum mínum.“
Hún segir að þótt fyrstu tvær bækurnar fjalli um þessi þungu málefni segi það lítið um framtíðarskrifin. „Eftir fimm ár gæti ég allt eins tekið upp á því að skrifa barnabók, hugljúfa og fallega sögu fyrir börn. Ímyndunaraflið á sér engin mörk og teygir anga sína víða,“ segir hún að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -