Falleg mynd af eldri manni sem starir á hafið með myndaramma sér við hlið hefur farið eins og eldur um sinu á internetinu síðustu daga.
Það var veitingamaðurinn Giorgio Moffa sem tók myndina í borginni Gaeta á Ítalíu og deildi henni á Facebook-síðu sinni.
„Ég þekki ekki þessa yndislegu manneskju. Ég veit bara að ástin hans var klárlega stór ást. Ég sá hann gráta. Ég held að svona menn séu ekki til lengur. Ég sendi þér innilegt faðmlag, kæri vinur. Þú ert stórkostlegur maður,“ skrifar Giorgio við myndina sem hefur, þegar þetta er skrifað, verið deilt tæplega fjögur þúsund sinnum. Tæplega sjö þúsund Facebook-notendur hafa líkað við myndina.
Giorgio segir í samtali við Yahoo Lifestyle að maðurinn á myndinni heiti Giuseppe og að myndin í rammanum sé af eiginkonu hans heitinni. Hann segir að Giuseppe mæti á bryggjuna á hverjum morgni með myndarammann og að hann hafi gert það í fjölmörg ár.
„Giuseppe sagði mér að ástæðan fyrir því að hann heimsækir þennan stað er vegna þess að þau hjónin eyddu góðum tíma á nálægri strönd fyrir löngu síðan. Þau voru fyrsta ást hvors annars og gengu í hjónaband. Þetta var heil ævi af ást,“ segir Giorgio.
Hann segir jafnframt að Giuseppe, sem nú er 72ja ára gamall, hafi átt þrjú börn með eiginkonu sinni, en að hún hafi dáið fyrir nokkrum árum úr sjúkdómi.
„Þegar hann fer á stað þar sem hann hefur verið með eiginkonu sinni þá tekur hann mynd af henni alltaf með,“ bætir Giorgio við.