Þórunn Jónsdóttir, systir Jóns Þrastar Jónssonar, segir tengiliði fjöskyldunnar hjá lögreglunni á Íslandi og á Írlandi ekki kannast við þær upplýsingar að bróðir hennar hafi verið myrtur af öðrum Íslendingi. Hún er ósátt við fréttaflutning þess efnis í gær.
Írskir fjölmiðillinn Sunday Independent fullyrðir að Jón Þröstur Jónsson, sem hvarf á Írlandi í fyrra, hafi verið myrtur af öðrum Íslendingi vegna ósættis um peningamál á pókermóti. Jón Þröstur var staddur í Dublin til að taka þátt í slíku móti.
Vísir greindi frá þessu og vitnaði í fyrrnefndan fjölmiðil. Íslenski maðurinn sem liggur undir grun er sagður vera í haldi lögreglunnar á Íslandi. Jón Þröstur hvarf í Dublin á Írlandi í febrúar í fyrra og ekkert hefur spurst til hans síðan. Samkvæmt Vísi á annar íslenskur maður, sem sagður er í fangelsi vegna þjófnaðar, að hafa hafa sett sig í samband við fjölskyldu Jóns og veitt þeim þessar upplýsingar. Þórunn segist hvorki kannast við að hafa verið upplýst um þetta af lögreglu né umræddum Íslendingi.
„Í tilefni af fréttum af máli bróður míns þá höfum við haft samband við lögregluna á Írlandi og Íslandi og hvorugur tengiliður okkar kannaðist við þær upplýsingar sem koma fram í svokallaðri frétt Independent. Fjölskyldan hefur heldur ekki fengið veður af þessum upplýsingum sem meintur uppljóstrari á að hafa komið til okkar í gegnum vinkonu sína og er fjallað um í fréttinni,“ segir Þórunn og bætir við:
„Það er auðvitað grafalvarlegt mál af blaðamanni að birta svona frétt án þess að vera með staðfestar og áreiðanlegar upplýsingar frá lögreglu og hafa svo ekki samband við fjölskyldu til að láta vita að birta ætti upplýsingar sem hún veit að gætu valdið uppnámi.“