Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Systkini syrgja Rannveigu sem var aðeins fertug: „Sársaukinn og söknuðurinn er óbærilegur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rannveig Þorvaldsdóttir, kennari og fyrrum Íslandsmeistari í körfubolta, var aðeins fertug er hún lést eftir harða baráttu við krabbamein. Hennar er minnst fyrir hlýju og væntumþykju sem fjölskylda, vinir, samstarfsmenn og nemendur sjá á eftir.

Rannveig Þorvaldsdóttir kennari fæddist í Reykjavík 16. mars 1980. Hún lést á líknardeild Landspítalans 20. febrúar 2021 og lætur eftir sig eiginmann og þrjár ungar dætur: Áslaugu, Ingibjörgu og Þóru.

Rannveig ólst upp í Njarðvík þar sem faðir hennar var sóknarprestur. Fjölskyldan fluttist síðar á Seltjarnarnes þar sem hún lauk grunnskóla. Hún lauk stúdentsprófi frá MR og grunnskólakennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands, með áherslu á stærðfræði. Að loknu kennaraprófi starfaði Rannveig sem stærðfræðikennari á unglingastigi við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði og var hún um tíma formaður Flatar, samtaka stærðfræðikennara.

Blessuð sé minning Rannveigar.

Rannveig lærði ung á fiðlu og kynntist körfubolta í Njarðvík. Hún gekk síðar í raðir KR á unglingsárunum og lék yfir 80 leiki í efstu deild kvenna í körfuknattleik og var í U-18 ára landsliði Íslands. Hún varð tvívegis Íslands-, bikar- og deildarmeistari með KR.

Ingibjörg, eldri systir Rannveigar, syrgir yndislega manneskju í minningargreind í Morgunblaðinu í dag. „Elskulega systir mín er látin, söknuðurinn er mikill og sársaukinn óbærilegur. Í rúm tvö ár háði hún erfiða baráttu við þennan hræðilega sjúkdóm sem sigraði að lokum. Að fylgjast með henni og Sverri í þessu erfiða ferli þar sem hvert áfallið á fætur öðru dundi yfir með þrjár ungar dætur til að hugsa um er búið að vera aðdáunarvert og ofboðslega erfitt. Hún kvartaði aldrei, sterkari einstaklingi hef ég ekki kynnst, svo róleg og yfirveguð, fullkomið æðruleysi,“ segir Ingibjörg.

Ég trúi því að þú hafir getað horft framan í dauðann af slíku æðruleysi af því að þú varst ánægð í eigin skinni.

Eins og áður sagði starfaði Rannveig sem kennari í Öldutúnsskóla, og var hennar minnst með hlýhug á heimasíðu skólans. „Rannveig lést í faðmi fjölskyldunnar eftir rúmlega tveggja ára baráttu við krabbamein. Hún fór í veikindaleyfi í september 2018 og hófst þá erfið barátta við krabbameinið. Á síðasta skólaári mætti hún svo brött til vinnu um mitt skólaár, bjartsýn á að framundan væru betri tímar. En því miður varð það ekki raunin,“ segir í tilkynningunni. Þar er Rannveigar minnst sem frábærs kennara:

- Auglýsing -

„Rannveig var ekki bara góður stærðfræðikennari, hún var einnig frábær umsjónarkennari. Lagði sig fram um að kynnast umsjónarnemendum sínum og fylgjast vel með líðan þeirra. Var alltaf til taks ef nemendur vildu ræða við hana. Þeim þótti afar vænt um Rannveigu þar sem þeir fengu frá henni hlýju og væntumþykju. Nemendur sjá nú á eftir frábærum kennara og starfsmenn sjá á eftir yndislegum samstarfsfélaga og vini.“

Ingibjörg var oft fengin til að passa Ranveigu systur sína á yngri árum. „Það var auðsótt, hún var svo þægilegt og meðfærilegt barn. Svo falleg með blá augu, mikið dökkt hár, geislandi bros og dillandi hlátur. Allir sem sáu hana heilluðust af henni, hún var alltaf kát. Söknuðurinn er mikill. Eftir sitja ótal minningar sem munu ylja mér alla ævi og ég mun deila með frænkum mínum til að heiðra minningu stórkostlegrar móður þeirra. Guð gefi okkur öllum sem vorum svo heppin að hafa Rannveigu í okkar lífi styrk til að takast á við þessa miklu sorg,“ segir Ingibjörg.

Kristinn, yngri bróðir Rannveigar, minnist systur sinna með mikilli hlýju í minningargrein. „Við höfum öll hlutverk í lífinu. Ólík hlutverk í lífi hvert annars. Ég fékk að hafa það hlutverk að vera bróðir þinn og það hefur verið gefandi. Þó að ekki muni nema ári á okkur var ég alltaf litli bróðir þinn. Það þýddi þó ekki að ég fengi einhvern afslátt hjá þér, hvorki þá né nokkurn tímann. Ég vissi það ekki þá en veit það nú að þannig var umhyggjan hjá þér. Að ýta við okkur sem þér þótti vænt um, enga vorkunn og enga væmni. Það gerir mér erfitt fyrir núna. Að hugsa til þín án þess að gefast upp,“ segir Kristinn og bætir við:

- Auglýsing -

„Það gefur mér hins vegar styrk að sjá hvernig þú nálgaðist verkefni síðustu mánaða. Raunsæ, ákveðin, hugrökk og heiðarleg. Ég trúi því að þú hafir getað horft framan í dauðann af slíku æðruleysi af því að þú varst ánægð í eigin skinni. Þið leyfðuð stelpunum alltaf að fylgjast með þínum veikindum. Ykkar veikindum. Umhyggjan þín fólst í því að fela ekki né forðast heldur að takast á við lífið í sameiningu eins og það blasir við. Halda ótrauð áfram. Njóta hversdagsins án eftirsjár. Brosa í gegnum tárin með þakklæti að vopni. Nú hef ég fengið nýtt hlutverk í þínu lífi, elsku Rannveig. Þú ert nú farin en ég mun halda minningu þinni á lofti með Sverri og stelpunum. Hjálpa þeim að rækta það sem þú hefur lagt inn í þessar fallegu manneskjur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -