Ísold Wilberg Antonsdóttir og Már Gunnarsson flytja og semja lagið Jólaósk sem vann jólalagakeppni Rásar 2 í ár.
Textinn fjallar um hindranir sem allir þurfa að yfirstíga einhvern tímann á lífsleiðinni og hversu mikilvægt það er að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og finna gleði í litlu hlutunum, sérstaklega um jólin. Stefán Örn Gunnlaugsson tekur upp lagið og spilar á öll hljóðfæri nema píanó sem Már Gunnarsson spilar á. Sigurdór Guðmundsson sér um hljóðblöndun hjá Skonrokk Studio.
Már er einnig afreksmaður í íþróttum og hefur keppt fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi og tveimur Evrópumeistaramótum. Hann gat ekki veitt viðurkenningunni móttöku því á sama tíma var hann staddur á Hótel Sögu að taka á móti verðlaunum sem íþróttamaður ársins frá íþróttasambandi fatlaðra. Már er einnig handhafi Kærleikskúlunnar í ár.
Sjá einnig: Már Gunnarsson hlýtur Kærleikskúluna 2019
Jólaósk var að lokum valið það besta. Í öðru sæti lenti Hversu fagurt væri það? með Kristjönu Stefánsdóttur og Betlehembræður & JGG í því þriðja með lagið Einn um jólin. Um fjörutíu lög bárust í jólalagakeppnina í ár, átta lög voru valin til úrslita og gátu landsmenn kosið á milli þeirra til móts við dómnefnd Rásar 2.