Glæpasagnahátíðin Iceland Noir hófst í gær í IÐNÓ en á henni koma yfir 60 höfundar saman í fjölbreyttri dagskrá sem stendur til sunnudags. Hátíðin er fyrir alla sem hafa áhuga á glæpasögum, að sögn rithöfundarins Óskars Guðmundssonar, formanns skipulagsnefndar Iceland Noir. Ásamt honum sjá rithöfundarnir Lilja Sigurðardóttir, Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir um skipulag hátíðarinnar.
Hugmyndin að hátíðinni kviknaði árið 2013. „Hugmyndin fæddist hjá Ragnari, Quentin Bates og Yrsu fyrir fimm árum og fyrsta hátíðin var svo haldin ári síðar, 2014, þar sem Lilja kom einnig að skipulagningunni. Síðan þá hefur hún verið haldin hér á landi annað hvert ár en þess á milli hefur einhver annar haldið hana í okkar nafni erlendis.“
Óskar segir hátíðina fara stækkandi ár frá ári en þetta árið halda um 60 glæpasagnahöfundar erindi á henni í formi pallborðsumræðna og hátt í 150 íslenskir sem og erlendir gestir munu heimsækja hátíðina. „Í ár eru mörg stór og þekkt nöfn sem taka þátt, það hefur nefnilega verið eftirsótt að komast að á hátíðina og við stóðum fljótlega frammi fyrir því lúxusvandamáli að þurfa að setja rithöfunda á biðlista því hátíðin hefur spurst út víða og orðið eftirsótt. Enda hefur hún alltaf heppnast gríðarlega vel og við lagt mjög mikinn metnað í alla umgjörð og dagskrá.“
Við stóðum fljótlega frammi fyrir því lúxusvandamáli að þurfa að setja rithöfunda á biðlista.
Beðinn um að nefna dæmi um nokkra spennandi viðburði á hátíðinni segir Óskar: „Þegar stórt er spurt. Dagskráin sjálf er auðvitað hrikalega spennandi og þá eru heiðursgestirnir okkar til dæmis ekki af verri endanum, þar má nefna forsetafrúna okkar, Elísu Reid, forsætisráðherrann okkar, Katrínu og stórskáldið Sjón. Þau taka þátt í pallborði með okkur en einnig má nefna kanadíska höfundinn Shari Lapena og Mark Billingham, þau halda hvort sitt erindið í dag.“
Spennandi stökkpallur
Óskar kom fram á sjónarsviðið árið 2015 með glæpasöguna Hilma. Hann segir Iceland Noir hafa reynst sér vel eftir útgáfu hans fyrstu bókar. „Þetta er frábær vettvangur fyrir nýja íslenska höfunda og ég fékk að kynnast því árið 2016. Hátíðin getur verið spennandi stökkpallur fyrir nýja höfunda og ekki síst til að kynnast þessu samfélagi rithöfunda. Við erum með pallborðsumræður sérstaklega fyrir nýja glæpasagnahöfunda,“ segir Óskar sem mælir eindregið með hátíðinni fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref sem rithöfundar.
Óskar mælir einnig með hátíðinni fyrir alla þá sem hafa áhuga á glæpasögum. „Það er hreint út sagt frábært að kynnast öllu þessu fólki og fá innsýn inn í heim rithöfunda, líf þeirra og hvernig þeir vinna. Á hátíðinni gefst öllum tækifæri til að komast í nálægð við höfunda og spjalla við þá. Það hefur verið á brattann að sækja að fá Íslendinga til að mæta á hátíðina en við erum þó með sérstakt átak í þeim efnum núna þar sem þeir geta keypt sig inn á staka viðburði á TIX.is. Aðspurður hverju það sæti segir Óskar að það sé sennilega vegna þess að landinn þekkir þetta ekki. „Ég held að fólk átti sig ekki á því að þetta er fyrir alla og allir velkomnir. Þarna er bara líf og fjör í tuskunum.“
Það er hreint út sagt frábært að kynnast öllu þessu fólki og fá innsýn inn í heim rithöfunda.
Hljómsveit skipuð rithöfundum
Óskar segir að um heljarinnar prógramm sé að ræða. „Hátíðin byrjaði síðdegis í gær og svo eru haldnir viðburðir frá morgni til kvölds þar til á sunnudag. Svo er auðvitað ball á morgun, laugardag, í IÐNÓ. Þar spilar hljómsveitin Fun Lovin’ Crime Writers fyrir dansi en sú hljómsveit er skipuð sex breskum glæpasagnahöfundum. Þau syngja eingöngu lög þar sem einhver er myrtur,“ segir Óskar og hlær. „Þetta er ekki bara gríðarlega áhugaverð hljómsveit, heldur einnig mjög góð.“
Áhugasamir geta nálgast upplýsingar um hátíðina á vefsíðunni www.icelandnoir.is.