Mun meiri aðsókn en var á Vonarstræti
Kvikmyndin Lof mér að falla eftir Baldvin Z er áfram í efsta sæti aðsóknarlista kvikmyndahúsanna eftir þriðju sýningarhelgi og hafa um 34 þúsund manns séð hana hingað til.
Til samanburðar má geta þess að þetta er mun meiri aðsókn en var á aðra kvikmynd Baldvins Z, Vonarstræti, sem hafði fengið um 28 þúsund gesti eftir þriðju sýningarhelgi árið 2014.
Alls sáu 10,476 gestir Lof mér að falla í vikunni, en heildarfjöldi gesta er 33,979 manns.
En það eru ekki bara Íslendingar sem hafa hrifist af Lof mér að falla. Stephen Dalton gagnrýnandi The Hollywwod Reporter, sá hana á kvikmyndahátíðinni í Toronto og var mjög hrifinn. Hann segir í dómi sem birtist í The Hollywood Reporter á dögunum að myndin sé grípandi og hjartnæm frásögn um kunnuglegt efni, sem geri bæði angist og alsælu vímuefnamisnotkunar góð skil, þökk sé góðum leikarahópi, flottri myndatöku og handriti.
Af aðsókn á aðrar íslenskar myndir sem nú eru í bíó er það að frétta að 197 manns sáu Kona fer í stríð í vikunni. Alls hafa 17,873 séð myndina eftir 18. sýningarhelgi, en hún var valin framlag Íslands til Óskarsverðlauna á dögunum.